Óli Jón Ólason fæddist á Stakkhamri í Miklaholtshreppi í Hnappadalssýslu hinn 16.9. 1901. Foreldrar hans voru hjónin Elinborg Tómasdóttir húsfreyja og Óli Jón Jónsson, bóndi á Stakkhamri.

Óli Jón Ólason fæddist á Stakkhamri í Miklaholtshreppi í Hnappadalssýslu hinn 16.9. 1901. Foreldrar hans voru hjónin Elinborg Tómasdóttir húsfreyja og Óli Jón Jónsson, bóndi á Stakkhamri.

Eiginkona Óla var Arnlín Petrea Árnadóttir húsfreyja, fædd í Gerðakoti á Miðnesi árið 1905. Þau eignuðust fjögur börn; Elínborgu sem er látin, Elínu, Óla Jón og Gunnar Árna.

Óli brautskráðist frá Flensborgarskólanum, stundaði síðan nám við Verslunarskóla Íslands og útskrifaðist þaðan 1922. Hann hafði þá unnið ýmis verslunarstörf með náminu.

Árið 1921 stofnaði Óli, ásamt bræðrum sínum, Jóni og Tómasi, Skóbúð Reykjavíkur. Hann starfaði síðan við verslunina og sinnti innflutningi, aðallega á skófatnaði, en skóbúðina rak hann legnst af sem einkaeigandi til ársins 1954, er hann seldi hana.

Árið 1940 gekk Óli í félag með Þorvaldi Benjamínssyni stórkaupmanni og ráku þeir umboðsverslunina Th. Benjamínsson & Co. Við fráfalls Þorvalds, 1946, varð Óli einkaeigandi fyrirtækisins.

Óli gegndi fjölda trúnaðarstarfa meðfram viðskiptaumsvifum sínum. Hann var m.a. einn af stofnendum Loftleiða hf. 1944 og sat í stjórn þess fyrstu tíu árin. Hann var mikill áhugamaður um félagið og vann þar mikið starf og var vinsæll af öllum sem til hans þekktu.

Óli sat í Verslunarráði, var formaður Skókaupmannafélagsins, formaður opinberrar nefndar er annaðist innflutning á gúmmískófatnaði á stríðsárunum og formaður Stangaveiðifélags Íslands. Hann var fulltrúi í íslenskri sendinefnd á fyrsta fundi IATA í Dublin eftir stríð.

Þá vann hann mikið starf fyrir Rauða kross Íslands, m.a. við móttöku á fyrsta hópi flóttamanna frá Ungverjalandi árið 1956. Hann sat í stjórn RKÍ í tíu ár og var síðar formaður Reykjavíkurdeildarinnar. Óli var sæmdur heiðursmerki Rauða kross Íslands 1967.

Óli Jón Ólason lést 1.5. 1974.