Ættartré Rúnar ásamt fjölskyldu sinni í Hafnarfirði í sumar.
Ættartré Rúnar ásamt fjölskyldu sinni í Hafnarfirði í sumar. — Ljósmynd/Rúnar Birgir Gíslason
Rúnar Birgir Gíslason fagnar í dag fertugsafmæli sínu en þrátt fyrir það liggur nærri að hann upplifi spennufall eftir atburði liðinnar viku. Rúnar er formaður dómaranefndar KKÍ og stjórnarmaður í félaginu og forfallinn körfuboltaáhugamaður.

Rúnar Birgir Gíslason fagnar í dag fertugsafmæli sínu en þrátt fyrir það liggur nærri að hann upplifi spennufall eftir atburði liðinnar viku. Rúnar er formaður dómaranefndar KKÍ og stjórnarmaður í félaginu og forfallinn körfuboltaáhugamaður. Hann fylgdi því íslenska körfuboltalandsliðinu eftir til Berlínar á Evrópumótið. Upplifun sína af mótinu kallar hann ekkert minna en stórkostlega.

„Maður fór þangað með hóflegar væntingar,“ segir Rúnar, „en þetta var allt í hina áttina. Bæði liðið og áhorfendur sprungu þarna út og þetta var stórkostleg ferð í alla staði fyrir mann sem hefur lifað og hrærst í körfubolta stærstan hluta ævi sinnar. Það var þarna ákveðin körfuboltafjölskylda sem hefur beðið í sumum tilfellum í tugi ára eftir að eitthvað gerðist og þarna myndaðist einhver stemning sem ég hef aldrei séð á neinum íþróttaleik áður. Þetta var bara stórkostlegt.“

Afrekaskrá Rúnars á körfuboltavellinum er fyrst og fremst í hlutverki dómara, en hann dæmdi bæði hér á landi og í Danmörku. Hann er nú forritari hjá Advania, þar sem hann segist nóg hafa að gera.

Rúnar er giftur Hugrúnu Ósk Ólafsdóttur og þau eiga þrjú börn, þau Ástrós Hind 13 ára, Bergdísi Hebu 9 ára og Hinrik Huga 6 ára. Í sumar eyddi fjölskyldan sem mestum tíma í Skagafirðinum, þaðan sem Rúnar er ættaður. Afmælisfagnaðurinn verður með svipuðum hætti, telur Rúnar, sem lætur Skagafjörðinn koma til sín í þetta skiptið. Skagfirskt lamb á matseðilinn.