Svanur Kristjánsson
Svanur Kristjánsson
Píratar eru að eigin áliti helsti lýðræðisflokkur landsins og berjast að eigin sögn ekki aðeins fyrir lýðræðislegra þjóðfélagi heldur einnig fyrir opnara þjóðfélagi á öllum sviðum.

Píratar eru að eigin áliti helsti lýðræðisflokkur landsins og berjast að eigin sögn ekki aðeins fyrir lýðræðislegra þjóðfélagi heldur einnig fyrir opnara þjóðfélagi á öllum sviðum.

Þetta opna þjóðfélag nær þó ekki til píratanna sjálfra því þeir stunda stjórnmálastarf sitt að miklu leyti á bak við tjöldin og á lokuðum spjallsvæðum á vefnum.

Þetta hefur þótt ósamrýmanlegt í meira lagi, en nú hefur stjórnmálafræðingur Pírata stigið fram og útskýrt hvers vegna flokksstarf Pírata er einmitt miklu lýðræðislegra en flokksstarf annarra.

Svanur Kristjánsson segir að vandi Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, sem hann les út úr slöku gengi í könnunum, stafi af því að þessir flokkar hafi viðhaft það sem hann kallar opin prófkjör til að velja fulltrúa flokkanna á framboðslista.

Leið Píratanna, að velja á listann á óskilgreindan hátt í bakherbergjum, er að mati Svans miklu lýðræðislegri leið og ástæða þess er, ef marka má viðtal við hann í Ríkisútvarpinu í gær, að fulltrúalýðræðið er „þversögn“.

Nú er það vissulega svo að ýmsar leiðir koma til greina við að velja á lista, en er ekki nokkuð langt seilst fyrir Pírata að þurfa að tefla fram stjórnmálafræðingi sínum til að réttlæta lokað flokksstarf sitt?

Væri ekki nær að opna litla glufu inn í flokkinn og sýna almenningi hvað þar fer fram?