[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Guðmundur Magnússon gudmundur@mbl.is „Hvergi finnst mér útsýni fallegra á Íslandi en frá hlaðinu á Bakka í Svarfaðardal. Þangað kem ég enn til að dást að umhverfinu. Þetta er arfur frá þeim tíma sem ég var þar í sveit sem krakki.

Viðtal

Guðmundur Magnússon

gudmundur@mbl.is

„Hvergi finnst mér útsýni fallegra á Íslandi en frá hlaðinu á Bakka í Svarfaðardal. Þangað kem ég enn til að dást að umhverfinu. Þetta er arfur frá þeim tíma sem ég var þar í sveit sem krakki. En einna tignarlegast finnst mér í Arnarfirði þar sem Fjallfoss kemur ofan af Dynjandisheiði.“ segir Sigrún Magnúsdóttir umhverfis- og auðlindaráðherra.

Í dag, á Degi íslenskrar náttúru, beinir umhverfis- og auðlindaráðuneytið athyglinni sérstaklega að þeim stöðum og fyrirbærum í íslenskri náttúru sem hver og einn hefur hvað mest dálæti á. Við hæfi þótti því að heyra hverjir væru uppáhaldsstaðir ráðherrans. Sigrún segir að þeir séu margir víða um land. Töfrar Íslands liggi í fjölbreytni náttúrunnar. Hún sé órjúfanlegur hluti sjálfsmyndar þjóðarinnar. Snæfellsnes heilli hana og á Þingvöllum sé stórfenglegt umhverfi. Þjóðgarðurinn sé henni mjög kær. Það sé henni því mikið ánægjuefni að vera formaður Þingvallanefndar og geta lagt sitt af mörkum til uppbyggingar og verndar þjóðgarðinum. Þau hjónin, hún og Páll Pétursson fyrrverandi ráðherra, eigi sér svo sinn eigin sælureit norður í Blöndudal, þar sem þau hafa stundað skógrækt um árabil.

Stór frumvörp á þingi

Íslensk náttúra er Sigrúnu hugleikin. Sem umhverfis- og auðlindaráðherra hefur hún mörg mál og sum stór á prjónunum í upphafi nýs þingvetrar. Á næstu dögum mun hún mæla fyrir frumvarpi til breytinga á náttúruverndarlögum, grundvallarlöggjöf sem tekur gildi 15. nóvember. Afgreiðslu frumvarpsins var frestað á vorþingi til að tryggja að málið fengi fullnægjandi umfjöllun. Ráðherra kveðst trúa því að víðtæk sátt og samstaða geti tekist um löggjöfina, enda sé það mikilvægt. Það sé sér mikið metnaðarmál að málið fáið afgreiðslu núna.

Annað stórt mál sem umhverfisráðherra flytur á næstunni er svokallað innviðafrumvarp sem einnig kom fram á síðasta þingi en var ekki afgreitt. Um er að ræða landsáætlun um uppbyggingu innviða í þágu náttúruverndar á ferðamannastöðum. Frumvarpið kveður á um að gerð verði tólf ára stefnumarkandi áætlun um uppbyggingu innviða sem lögð verður fyrir Alþingi í formi þingsályktunartillögu á þriggja ára fresti. Samhliða verði unnar þriggja ára verkefnaáætlanir sem kveða nánar á um forgangsverkefni hverju sinni. Er markmiðið með áætluninni að móta stefnu, samræma og forgangsraða tillögum um uppbyggingu og viðhald innviða fyrir ferðamenn í þágu náttúruverndar.

Loftslag og landsskipulag

Af öðrum málum sem nú er unnið að í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu má nefna stefnumörkun um landsskipulag næstu ára, hagræðingu hvað varðar verkefni og samstarf stofnana ráðuneytisins, undirbúning að þátttöku Íslands í hinni mikilvægu loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í París í desember og endurskoðun byggingarreglugerðar með það að markmiði að lækka byggingarkostnað.

Ráðstefnan í París er Sigrúnu ofarlega í huga, enda hefur hún verið nefnd mikilvægasta alþjóðaráðstefna fyrr og síðar. Þar á að ganga frá alþjóðasamkomulagi um takmörkun á losun gróðurhúsalofttegunda. Hún segir að Ísland muni leitast við að ná sameiginlegu markmiði með ríkjum ESB og Noregi um 40% minnkun losunar til 2030 miðað við 1990. Markmiðið sé framhald af því fyrirkomulagi sem nú sé við lýði á 2. skuldbindingartímabili Kýótó-bókunarinnar, þar sem Ísland er hluti af sameiginlegu losunarmarkmiði Evrópuríkja á tímabilinu 2013-2020. Sigrún sagði að rætt væri um það að forsætisráðherrar ráðstefnuríkjanna flyttu ávörp í upphafi hennar. Þetta væri ekki fullfrágengið, en væri til marks um vilja til að ráðstefnan sýni að hún sé að marka skuldbindandi stefnu í einhverju mesta alvörumáli mannkyns.

Ferðaþjónustan er mál málanna á Íslandi og vart svo að tveir Íslendingar hittist án þess að deila einhverri reynslu á því sviði. „Þessi mikli ferðamannastraumur til landsins kallar á aukið fjármagn til viðhalds og uppbyggingar,“ segir Sigrún. Það fé hljóti að koma annars vegar frá atvinnugreininni sjálfri og svo með framlagi ríkisins sem henni hugnast að afla með komugjaldi til landsins í einhverju formi. Hún segir að ekkert sé óeðlilegt við það að Íslendingar greiði slíkt gjald einnig, enda verði því í hóf stillt. Hófleg verðlagning sé einnig mikilvæg þegar um þjónustugjöld sé að ræða í ferðaþjónustu. Þingvallanefnd hafi haft þetta að leiðarljósi þegar gjöld fyrir notkun bílastæða við þjóðgarðinn voru ákveðin.

Sigrún bendir á að ferðamenn þurfi ekki að fara langt og alls ekki upp á hálendið til að njóta ósnortinnar náttúru á Íslandi. Mikilvægt sé að ferðaþjónustan dreifi álaginu á landið og hafi þá náttúruna við túnjaðar þéttbýlisins í huga.

Nýtni og góð umgengni

Sigrún segir að nýtni og góð umgengni í víðtækum skilningi séu sín leiðarljós í umhverfismálum. Heimurinn væri betri ef allir tileinkuðu sér þá reglu. Minnka þurfi umbúðanotkun, einkum plast, draga úr sóun matvæla, eldsneytis og auðlinda. Henni verður tíðrætt um græna orku Íslendinga sem veki athygli allra erlendra ráðamanna sem hingað komi. Þekking og reynsla Íslendinga á sviði jarðvarmaorku gagnist öðrum þjóðum og sé vel þegin. Hún talar einnig um mikilvægi þess að auka skógrækt og landgræðslu, bindingu kolefnis, til mótvægis við losun gróðurhúsalofttegunda. Þá segir hún að við þyrftum að setja okkur að rafvæða eins og 5% bílaflotans á Íslandi á næstu árum. Það þýði að átak þurfi að gera til að byggja upp hleðslustöðvar um land allt.