Á vergangi Flóttamaður ber barn á bakinu við landamæri Ungverjalands að Serbíu. Um hálf milljón flóttamanna og annarra hælisleitenda fór til Evrópusambandslanda fyrstu átta mánuði ársins, nær tvöfalt fleiri en allt síðasta ár.
Á vergangi Flóttamaður ber barn á bakinu við landamæri Ungverjalands að Serbíu. Um hálf milljón flóttamanna og annarra hælisleitenda fór til Evrópusambandslanda fyrstu átta mánuði ársins, nær tvöfalt fleiri en allt síðasta ár. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bogi Þór Arason bogi@mbl.

Bogi Þór Arason

bogi@mbl.is

Stjórnvöld í Ungverjalandi lýstu í gær yfir neyðarástandi í tveimur sýslum við landamærin að Serbíu og ungverska lögreglan byrjaði að framfylgja nýjum hegningarlögum sem sett voru til að reyna að stöðva straum flóttamanna og annarra hælisleitenda yfir landamærin. Með því að lýsa yfir neyðarástandi veitti stjórnin lögreglunni víðtæka heimild til að handtaka fólk við landamærin. Stjórnin getur einnig beitt hernum til að loka landamærunum ef þing landsins samþykkir það.

Stjórnin sagði í gær að tugir manna hefðu verið handteknir og ákærðir fyrir að skemma 175 km langa gaddavírsgirðingu sem sett hefur verið upp við landamærin að Serbíu til að stöðva flóttamannastrauminn. Samkvæmt lögum sem tóku gildi í gær varðar það allt að þriggja ára fangelsi að reyna að komast yfir landamærin með ólöglegum hætti og þeir sem eru staðnir að því að skemma gaddavírsgirðinguna eiga allt að fimm ára fangelsi yfir höfði sér. Þar sem fangelsi landsins eru nú þegar full er líklegt að dómarar vísi flóttamönnum úr landi verði þeir fundnir sekir um að brjóta lögin. Ungverska stjórnin segir að hælisleitendur verði sendir til Serbíu ef beiðnum þeirra um hæli í Ungverjalandi verður synjað.

Vilja sérstakan leiðtogafund

Stjórnvöld í Austurríki, Slóvakíu og Þýskalandi hvöttu í gær til þess að efnt yrði til sérstaks leiðtogafundar ESB-ríkja um flóttamannavandann í næstu viku. Gert hefur verið ráð fyrir því að næsti leiðtogafundur verði um miðjan október en Angela Merkel, kanslari Þýskalands, segir að ekki sé hægt að bíða svo lengi eftir því að ESB-ríkin leysi deiluna um hvernig taka eigi á vandanum.

Innanríkisráðherrar ESB-ríkjanna samþykktu á fundi í fyrradag tillögu frá því í maí um að skipta 40.000 flóttamönnum á milli aðildarríkja en ekki náðist samkomulag um að ríkin tækju við 120.000 til viðbótar samkvæmt flóttamannakvótum sem framkvæmdastjórn ESB hefur lagt til. Innanríkisráðherra Þýskalands, Thomas de Maiziere, hefur lagt til að Evrópusambandið skerði styrki til ríkja sem neita að samþykkja flóttamannakvótann en Merkel kvaðst ekki styðja þá tillögu. „Hótanir eru ekki rétta leiðin til að ná einingu,“ sagði hún.

Slóvakar, Tékkar og Ungverjar eru andvígir tillögunni um flóttamannakvóta. Margir þeirra sem eru andvígir tillögu framkvæmdastjórnarinnar óttast m.a. að hún verði til þess að enn fleiri flóttamenn reyni að komast til Evrópu og flóttamannastraumurinn verði vatn á myllu þjóðernisöfgamanna.

Fréttaveitan AFP hefur eftir hagfræðingum að kostnaður ESB-ríkjanna af því að taka við flóttamönnum sé tiltölulega lítill en efnahagslegi ávinningurinn geti hins vegar verið mikill. Patrick Artus, hagfræðingur franska fjárfestingarbankans Natixis, sagði í nýlegri skýrslu að hagvöxtur myndi aukast í Evrópuríkjunum tækju þau við fleiri flóttamönnum. Holger Schmieding, hagfræðingur þýska fjárfestingarbankans Berenberg, tekur í sama streng og telur að hagvöxturinn á evrusvæðinu aukist strax um 0,2 prósent á síðari helmingi ársins vegna komu flóttamanna.

Friðaráætlun hunsuð?

Martti Ahtisaari, fyrrverandi forseti Finnlands, segir að sendiherra Rússlands hafi í febrúar 2012 lagt fram friðaráætlun sem hafi falið í sér afsögn einræðisherra Sýrlands, Bashars al-Assads, en vestræn stjórnvöld hafi virt tilboðið að vettugi.

Ahtisaari ræddi á þessum tíma við sendiherra ríkjanna fimm sem eiga fastafulltrúa í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Breska dagblaðið The Guardian hefur eftir Ahtisaari að sendiherra Rússa hafi þá lagt fram friðaráætlun sem falið hafi í sér að Assad segði af sér einhvern tíma eftir að friðarviðræður hæfust milli stjórnar hans og andstæðinga hennar. Bandaríkjamenn, Frakkar og Bretar hafi virt friðaráætlunina að vettugi vegna þess að þeir hafi verið vissir um að stjórn einræðisherrans myndi falla innan nokkurra vikna. „Þetta var tækifæri sem glataðist árið 2012,“ hefur The Guardian eftir Ahtisaari.

Þegar viðræðurnar fóru fram í New York var talið að 7.500 manns hefðu látið lífið í stríðinu í Sýrlandi. Nú er talið að rúmlega 240.000 manns hafi beðið bana og 11 milljónir manna þurft að flýja heimkynni sín.

Hernaðaraðstoðin aukin

Stjórnvöld í Rússlandi hafa alltaf stutt einræðisstjórnina í Sýrlandi og aldrei léð máls á því opinberlega að Assad segi af sér. Stjórnvöld á Vesturlöndum saka Rússa um að hafa aukið hernaðaraðstoð sína við einræðisstjórnina að undanförnu, m.a. sent hermenn, stórskotabyssur og skriðdreka í sýrlenska herstöð. Vladímír Pútín Rússlandsforseti kvaðst í gær ætla að halda áfram að veita stjórn Assads „alla nauðsynlega hernaðaraðstoð“ í „baráttu hennar gegn hryðjuverkamönnum“.
Hátt í 2.900 drukknuðu
» Tuttugu og tveir flóttamenn, þ.ám. fjögur börn og ellefu konur, drukknuðu í gær þegar bátur þeirra sökk í Miðjarðarhafi á leið frá Tyrklandi til Grikklands.
» Talið er að hátt í 2.900 flóttamenn hafi drukknað á leiðinni yfir hafið til Evrópuríkja það sem af er árinu. Meirihluti þeirra flýði stríð í Sýrlandi og fleiri löndum.