Fyrst var þjónustan í ólestri – nú er kostnaðurinn úr böndum

Ekki er ein báran stök þegar kemur að breyttu fyrirkomulagi á ferðaþjónustu fyrir fatlaða á höfuðborgarsvæðinu. Allt fór í uppnám þegar breytingarnar voru gerðar um áramót. Ekki stóð steinn yfir steini í þjónustunni og notendur þjónustunnar lentu ítrekað í óboðlegum hremmingum.

Það versta var að hæglega hefði verið hægt að koma í veg fyrir glundroðann með því að hlusta á gagnrýni og ábendingar, sem komu fram áður en ráðist var í breytingarnar. Að þessar breytingar skyldu gerðar á þjónustu við fatlaða þegar ljóst var í hvað stefndi er óafsakanlegt.

Nú þegar loks eru hættar að birtast fréttir af ógöngum viðskiptavina þjónustunnar kemur á daginn að í nokkrum bæjarfélögum hefur kostnaður við ferðaþjónustuna snaraukist. Er þar bæði horft til heildarkostnaðar og kostnaðar við hverja ferð.

Í Hafnarfirði er yfirvöldum brugðið. Þar kostar hver ferð tvöfalt meira en í fyrra og gott betur. Eins og sagði í frétt í Morgunblaðinu í gær kom fram á fundi framkvæmdanefndar Strætó, sem sér um þjónustuna, í mars að kostnaður myndi dragast saman eftir því sem liði á árið, en það hefur ekki gerst. Efast forráðamenn Strætó nú um að það muni gerast, samkvæmt fréttinni.

Áætlað var að kostnaður Hafnarfjarðarbæjar af ferðaþjónustu fatlaðra á árinu yrði 73 milljónir króna, en nú er komið í ljós að hann mun líklega verða allt að 205 milljónir. Þetta er nánast þrefalt meira en gert var ráð fyrir.

Það fyrirkomulag, sem verið hafði á ferðaþjónustu fatlaðra, hafði virkað vel. Kominn var tími til að endurnýja bílaflotann, en ekki blasti við að því þyrfti að fylgja umpólun á þjónustunni. Breytingar á ekki að gera breytinganna vegna. Í þessu máli hefði alveg eins verið hægt að fara af stað með bundið fyrir augun. Fyrst var þjónustan í molum. Hún virðist sem betur fer orðin viðunandi. Eftir stendur að nú er þjónustan óhagkvæmari en hún var áður. Það er ekki hægt að bjóða íbúum höfuðborgarsvæðisins upp á svona vinnubrögð.