Kristín Óskarsdóttir fæddist 16. september 1920. Hún lést 22. ágúst 2015.

Útförin fór fram 29. ágúst 2015.

Elsku hjartans amma mín. Mikið sakna ég þín.

Þú varst sú jákvæðasta, hjartahlýjasta og yndislegasta amma sem nokkur getur hugsað sér og ég var svo heppin að eiga þig fyrir ömmu og fá að hafa þig hjá mér svona lengi.

Við áttum margar góðar stundir saman, svo margar þegar ég var lítið barn og líka margar þegar ég var sjálf komin með börn, þú hugsaðir alltaf svo vel til okkar og um okkur. Minningarnar eru margar úr dalnum góða sem þú unnir, í Dæli og síðar á Kirkjuveginum þar sem þér leið svo vel og svo undir það síðasta á Dalbæ. Þú lést ekki áföllin sem dundu á þér aftra þér frá því að fylgjast með stórfjölskyldunni þinni heldur varst alltaf með hugann við okkur og að okkur liði öllum vel og allt væri í lagi.

Minningarnar eru margar, jólakortaskrifin okkar eru mér ógleymanlegar stundir, spjall á pallinum, krummakannan þín full af hrafnsfjöðrum, jarðarber, tómatar, rósir, hlýja, alltaf eitthvað að sísla í höndunum og að allir hefðu nóg að borða, kúra í ömmu- og afaholu, hlýtt faðmlag og kossar á kinn, já amma þetta og svo ótalmargt fleira kemur upp í hugann minn. Börnin mín muna þig með bros á vör og er ég svo heppin að eiga eina litla Kristínu sem minnir mig alltaf á þig, dugnaður og seigla.

Í dag hefði ég svo mikið viljað hafa þig með okkur þar sem við höldum upp á hundrað ára afmælið hans afa og ætluðum við einnig að halda upp á níutíu og fimm ára afmælið þitt, við gerum það að sjálfsögðu en hefðum svo innilega viljað hafa þig hjá okkur á þessum degi, svo hefðuð þið afi átt sjötíu ára brúðkaupsafmæli í dag. Þú verður með okkur, ég veit það, og fylgist með og gleðst með okkur öllum, þú hafðir svo gaman af því að vera þar sem gleðin var og vildir helst ekki missa af neinu, svo ég veit að þú verður með okkur í dag í hjörtum okkar allra.

Elsku amma, ég gleymi aldrei okkar síðustu stund saman þar sem við spjölluðum svo mikið, hlustuðum á tónlist, ég las fyrir þig, við borðuðum tómata af tómataplöntunni í glugganum og vínber. En aldrei gleymi ég hlýja faðmlaginu þínu og heita kossinum sem þú gafst mér á vangann þegar ég kvaddi þig, líkt og þú vissir að við myndum ekki hittast í bráð aftur. Hvíl í friði, elsku amma mín.

Erla Rebekka.