Stjórnarandstæðingar í Venesúela fá skýr skilaboð

Venesúela hefur verið á fallanda fæti síðustu árin, enda hefur efnahagsmódel landsins byggst á ósjálfbærum olíuauði, sem nýttur var til þess að breiða yfir það hagkerfi skorts og smánar sem Chavisminn hefur reist. Það var því ekki að undra að Nicolas Maduro, forseti landsins, tæki því höndum tveim þegar Kínverjar ákváðu að koma honum til bjargar með láni upp á fimm milljarða Bandaríkjadala gegn auknum fjárfestingum þeirra í innviðum Venesúela.

Slík innspýting gæti dugað til þess að blása tímabundnu lífi í líkið, en mun líklega ekki duga til þess að koma í veg fyrir langvarandi vöruskort sem almenningur í landinu býr nú við, í það minnsta ekki í tæka tíð fyrir þingkosningarnar í desember. Stjórnvöld hafa því ákveðið að sýna klærnar enn frekar.

Leopoldo Lopez, einn skeleggasti andstæðingur stjórnvalda, hefur mátt dúsa í fangelsi frá því hann var handtekinn í útbreiddum götumótmælum í fyrra, sakaður um að hafa hvatt til ofbeldis. Þess hefur verið beðið með nokkurri eftirvæntingu hvaða refsing dómstólum þætti við hæfi fyrir „brot“ Lopez. Vakti það sérstaklega athygli hversu mjög var gengið á svig við mannréttindi hans í réttarhaldinu, en dómarinn hafnaði nánast öllum vitnum sem lögfræðingar hans lögðu til, og vísaði ennfremur nánast öllum sönnunargögnum sem bentu til sakleysis hans frá dómi. Að lokum þótti hæfileg refsing vera 13 ár, níu mánuðir og sjö dagar í fangelsi.

Þessi dómur er enn ein hneisan fyrir Venesúela, og er orðið nokkuð ljóst, að stjórnarfar í landinu fjarlægist vilja fólksins sífellt meir. Jafnframt hafa stjórnarandstæðingar í landinu fengið skýr skilaboð um að þeim beri að hafa sig hæga, ellegar fari þeir sömu leið.