Mbl.is Á nýja vefnum verður hægt að fylgjast með því sem er á döfinni.
Mbl.is Á nýja vefnum verður hægt að fylgjast með því sem er á döfinni.
Vefur um alla helstu viðburði á Íslandi hefur verið opnaður á mbl.is. Viðburðavefurinn er nýr vefhluti á mbl.is og inniheldur nú þegar upplýsingar um ríflega 600 viðburði.

Vefur um alla helstu viðburði á Íslandi hefur verið opnaður á mbl.is. Viðburðavefurinn er nýr vefhluti á mbl.is og inniheldur nú þegar upplýsingar um ríflega 600 viðburði. Á vefnum eru birtar upplýsingar um fjölda tónlistar- og menningarviðburða og allar helstu kvikmyndir. Þá eru á vefnum upplýsingar um ráðstefnur og aðra viðburði í viðskiptalífinu og fræðasamfélaginu.

,,Menningardeild, viðskiptadeild og fréttastjórn Morgunblaðsins og mbl.is berast á hverjum degi upplýsingar um fjölmarga viðburði sem eru á döfinni á Íslandi, miklu fleiri en við náum að fjalla um, segir Haraldur Johannessen, ritstjóri Morgunblaðsins og framkvæmdastjóri Árvakurs. ,,Hinn nýi viðburðavefur mbl.is gerir okkur kleift að miðla þessum upplýsingum áfram til lesenda á greinargóðan hátt. Morgunblaðið og mbl.is munu að sjálfsögðu halda áfram kröftugri umfjöllun um kvikmyndir, leikhús, menningu, fræði, viðskipti og tengda viðburði, hér eftir sem hingað til. Við sjáum viðburðavefinn sem kærkomna viðbót við þá umfjöllun.“

Skráðu þinn eigin viðburð

Mbl.is. er vinsælasti vefur landsins og nær til 89% allra Íslendinga á aldrinum 12-80 ára í viku hverri samkvæmt netmiðlakönnun MMR. ,,Skráning á mbl.is er því ein besta leið sem skipuleggjendur hafa til að koma viðburðum á framfæri, segir Kristinn Tryggvi Þorleifsson, framkvæmdastjóri mbl.is. ,,Fyrr á þessu ári var Iceland Monitor, frétta- og upplýsingavefur mbl.is á ensku, opnaður. Viðburðavefur Iceland Monitor hefur notið mikilla vinsælda meðal fleiri en ferðamanna einna, segir Kristinn Tryggvi, ,,Það lá því beinast við að bæta samskonar vefhluta við mbl.is.“

Opið er á skráningu á vefinn og geta skipuleggjendur skráð nýja viðburði sér að kostnaðarlausu. Allar skráningar eru yfirfarnar og háðar samþykki mbl.is. Við allar skráningar er hægt að setja inn hlekki sem vísa t.d. á vefsíður eða facebook-síður.

Á viðburðavef mbl.is má finna fjölmarga áhugaverða viðburði af ýmsum toga. Til dæmis sýninguna Erró og listasagan í Hafnarhúsinu, Startup helgi í Reykjavík, Dag þorsksins í Húsi sjávarklasans. og stóðréttir í Laufskálaréttum.