Leifsstöð Miklar tafir yrðu í Keflavík ef öll vegabréf væru skoðuð.
Leifsstöð Miklar tafir yrðu í Keflavík ef öll vegabréf væru skoðuð. — Morgunblaðið/Þórður
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðmundur Magnússon gudmundur@mbl.

Guðmundur Magnússon

gudmundur@mbl.is

„Skoða þyrfti vegabréf um 26 þúsund manna á hverjum degi, ef tekið verður upp vegabréfaeftirlit í Leifsstöð á Keflavíkurflugvelli að hætti Þýskalands og fleiri Evrópuríkja,“ segir Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, í samtali við Morgunblaðið. Það myndi leiða til mikilla tafa á umferð um flugstöðina. Fjölga yrði þá í starfsliði á flugvellinum. Í dag eru skoðuð um fjögur þúsund vegabréf daglega vegna ferða til og frá ríkjum utan Schengen-samstarfsins, einkum Bretlands, Bandaríkjanna og Kanada.

Ólafur Helgi segir að ákvörðun um að nota undanþáguákvæði Schengen-samkomulagsins um landamæravörslu sé pólitísk og í höndum innanríkisráðherra. Engin slík fyrirmæli hafi borist og hann viti ekki hvort þeirra sé að vænta. Engar ákveðnar vísbendingar hafi komið fram um þörf á slíku hér á landi. „Ekkert sem mínir menn hafa greint enn sem komið er kallar á slíkar brýnar aðgerðir fyrirvaralaust,“ segir hann.

Auk Þýskalands hafa Austurríki, Ungverjaland, Slóvakía og Danmörk ákveðið að fylgja fordæmi Þjóðverja og herða landamæraeftirlit vegna óviðráðanlegs aðstreymis flóttamanna. Fleiri ríki íhuga hið sama.

„Við fylgjumst náið með því sem er að gerast og höldum vöku okkar hér heima og látum ráðuneytið vita ef einhverjar breytingar verða á komu fólks til landsins,“ segir Ólafur Helgi. Hann sat í síðustu viku fyrir hönd Íslands fund í 32 manna stjórn Frontex, landamæraeftirlitsstofnunar Evrópu, í Póllandi. Þar voru allir sammála um að nauðsynlegt væri að grípa strax til aðgerða vegna flóttamannavandans.