Liðin eru fimm ár síðan deildarmeistarar í efstu deild karla hafa staðið uppi sem Íslandsmeistarar að lokinni úrslitakeppninni.

Liðin eru fimm ár síðan deildarmeistarar í efstu deild karla hafa staðið uppi sem Íslandsmeistarar að lokinni úrslitakeppninni. Eftir að úrslitakeppni var tekin upp á nýjan leik leiktíðina 2008-2009, eftir nokkurra ára hlé, náðu Haukar að vinna bæði deildina og úrslitakeppnina, þ.e. verða Íslandsmeistarar tvö fyrstu árin, 2009 og 2010. Síðan þá hafa deildarmeistarar ekki náð að standa uppi sem Íslandsmeistarar um vorið að lokinni úrslitakeppni.

Vorið 2011 varð Akureyri deildarmeistari en FH-ingar unnu Íslandsmeistaratitilinn eftir að hafa lagt deildarmeistarana í úrslitum.

Árið eftir urðu Haukar deildarmeistarar en leikmenn HK komu, sáu og sigruðu í keppninni um Íslandsmeistaratitilinn. Þeir unnu ríkjandi Íslandsmeistara FH í úrslitarimmu og Hauka í undanúrslitum.

Fram varð Íslandsmeistari vorið 2013. Fram vann deildarmeistara Hauka í einvígi um titilinn.

ÍBV varð Íslandsmeistari árið 2014. Eyjamenn lögðu deildarmeistara Hauka í æsilegum úrslitaleikjum um Íslandsmeistaratitilinn.

Í vor sem leið unnu Valsmenn deildarkeppnina. Þeim féll allur ketill í eld þegar kom inn í úrslitakeppnina þar sem Hlíðarendaliðið tapaði fyrir Haukum í undanúrslitum. Haukar unnu Íslandsmeistaratitilinn eftir fjögurra leikja rimmu við Aftureldingu um titilinn en Mosfellingar höfnuðu í öðru sæti í deildinni einnig. iben@mbl.is