Sigur Jonas Gahr Støre, leiðtogi Verkamannaflokksins, fagnar.
Sigur Jonas Gahr Støre, leiðtogi Verkamannaflokksins, fagnar. — AFP
Verkamannaflokkurinn, Umhverfisflokkurinn Græningjar og Miðflokkurinn eru álitnir sigurvegarar sveitarstjórnarkosninga sem fram fóru í Noregi í fyrradag.

Verkamannaflokkurinn, Umhverfisflokkurinn Græningjar og Miðflokkurinn eru álitnir sigurvegarar sveitarstjórnarkosninga sem fram fóru í Noregi í fyrradag.

„Verkamannaflokkurinn er stærsti flokkur Noregs og stærstur í 17 af 19 fylkjum,“ sagði Jonas Gahr Støre, sem varð leiðtogi Verkamannaflokksins fyrir rúmu ári. Flokkurinn fékk 33,6% atkvæðanna í öllu landinu og bætti við sig 0,4 prósentustigum. Umhverfisflokkurinn bætti við sig 3,8 stigum, fékk 5,0%, og fylgi Miðflokksins jókst um 1,6 stig í 7,9%.

Hægriflokkarnir tveir, sem mynduðu minnihlutastjórn eftir síðustu þingkosningar árið 2013, töpuðu báðir fylgi í sveitarstjórnarkosningunum. Hægriflokkurinn tapaði 4,1 stigi, fékk 23,5%, og fylgi Framfaraflokksins minnkaði um 1,5 stig í 10,3%. Tveir miðflokkar, sem styðja minnihlutastjórnina á þinginu, töpuðu einnig fylgi. Kristilegi þjóðarflokkurinn fékk 5,6% atkvæðanna, missti 0,3 prósentustig, og frjálslyndi flokkurinn Venstre fékk 4,9%, tapaði 0,7 stigum.

Hægriflokkurinn var stærstur í fimm af sex stærstu bæjarfélögunum fyrir kosningarnar en Verkamannaflokkurinn er nú stærstur í flestum sveitarfélaganna. Stjórnmálaskýrendur segja að úrslitin séu áfall fyrir stjórn Ernu Solberg, forsætisráðherra og leiðtoga Hægriflokksins, og geti torveldað samstarfið við Framfaraflokkinn. Einn þingmanna hans, Christian Tybring-Gjedde, sagði að flokkurinn þyrfti að meta hvort hann ætti að halda stjórnarsamstarfinu áfram í ljósi ósigursins. bogi@mbl.is