Stríðsminjar Braggarnir, sem upphaflega voru reistir af Bandaríkjaher árið 1943, hýsa nú safnið á Reyðarfirði.
Stríðsminjar Braggarnir, sem upphaflega voru reistir af Bandaríkjaher árið 1943, hýsa nú safnið á Reyðarfirði. — Ljósmynd/Íslenska stríðsárasafnið
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristján H. Johannessen khj@mbl.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Í sumar var þess minnst að 20 ár eru liðin frá opnun Íslenska stríðsárasafnsins á Reyðarfirði, en það var einkum reist í þeim tilgangi að veita gestum og gangandi færi á að skyggnast inn í líf og hugarheim þeirra sem uppi voru á tímum síðari heimsstyrjaldar.

Pétur Sörensson, forstöðumaður Safnastofnunar Fjarðabyggðar, segir hersetuna á sínum tíma hafa litað lífið í þorpinu mjög enda voru hermenn þar mun fleiri en allir íbúar Reyðarfjarðar.

„Árið 1942 voru um 320 íbúar skráðir í þorpinu, en þegar mest var er talið að þar hafi verið um og yfir 3.000 hermenn,“ segir Pétur í samtali við Morgunblaðið, en um var að ræða bandaríska, breska, kanadíska og norska hermenn.

Flytja átti særða frá Noregi

Húsnæði var þá mjög af skornum skammti á Reyðarfirði og spruttu því í kjölfarið upp braggahverfi vítt og breitt um þorpið og nærsveitir þess. Hluti þessara bragga stendur enn í dag og kallast hann einu nafni Spítalakampur, en safnið er þar til húsa. Voru braggarnir byggðir af Bandaríkjaher árið 1943 og voru þá tugir bragga tengdir saman með göngum. Í þessum mannvirkjum átti að hjúkra þeim sem særast myndu í fyrirhugaðri innrás í Noreg.

„Á þessu sjúkrahúsi voru um 70 manns í vinnu. Það var hins vegar ekki mikið notað,“ segir Pétur og heldur áfram: „Í fyrstu voru menn mjög hissa á því að svo stór spítali skyldi reistur á Reyðarfirði, en ástæðan var auðvitað sú að ef bandamenn hefðu farið inn í Noreg stóð til að flytja hingað sært fólk.“

Kafbátakort á flóamarkaði

Þeir sem sækja safnið heim geta til að mynda virt fyrir sér þrjá verklega herbíla, skotfæri og -vopn, sprengjur, ýmiskonar einkennisfatnað og kort sem eitt sinn tilheyrði þýskri kafbátaáhöfn. „Það eru mjög fá kort til af þessari gerð enda fóru flest þeirra niður með þýsku kafbátunum,“ segir Pétur. „Kortið er ekki síður merkilegt fyrir þær sakir að á því er stimpill frá Bókasafni Bandaríkjaþings, en við fengum kortið í gegnum mann sem rakst á það á flóamarkaði.“

Þá má á safninu einnig sjá muni sem fundust í braki Heinkel-flugvélar þýska flughersins sem að kvöldi hins 21. maí 1941 fór frá Noregi í vopnað könnunarflug til Íslands. Kom vélin upp að Austfjörðum aðfaranótt 22. maí og var henni við erfið skilyrði flogið inn í klettabelti Krossanesfjalls. Um borð voru fjórir menn, á aldrinum 24 til 31 árs, og létust þeir allir.

„Að hluta til eru þetta gripir sem varðveist hafa af svæðinu,“ segir Pétur og vísar í máli sínu til þeirra muna sem á safninu eru. Spurður hvort safnið sé vel sótt kveður Pétur já við. „Aðsókn er alltaf að aukast og þá sérstaklega meðal ferðamanna. Svo er safnið einnig fastur áningarstaður meðal fólks sem sækir okkur heim af skemmtiferðaskipum.“