Þórunn Kristjánsdóttir thorunn@mbl.is „Inflúensan kemur öðrum hvorum megin við áramótin. Við vitum aldrei almennilega hvernig hún verður.

Þórunn Kristjánsdóttir

thorunn@mbl.is

„Inflúensan kemur öðrum hvorum megin við áramótin. Við vitum aldrei almennilega hvernig hún verður. Það kemur betur í ljós þegar hún kemur,“ segir Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir hjá Embætti landlæknis. Það eru því árlegar veirupestir sem ganga núna og er algengt að þær láti á sér kræla á haustinn þegar skólar koma saman á nýjan leik, að sögn Þórólfs.

Fyrstu bólusetningarnar við inflúensu hefjast að öllum líkindum í næsta mánuði. Bóluefnið kom til landsins í byrjun þessa mánaðar. Bóluefnið inniheldur vörn gegn svínainflúensunni sem gekk hér 2009–2010 og að auki vörn gegn inflúensu af stofni H3N2 og inflúensu B.

Reiknað er með að notaðir verði yfir 60 þúsund skammtar af bóluefni. Það er svipað og var notað í fyrra.

„Bóluefnið sem var notað í fyrra passaði ekki alveg nógu vel við þá innflúensu sem gekk þá,“ segir Þórólfur. Þegar bóluefni er búið til þá þarf að spá fyrir um hvernig inflúensan muni verða. Virkni bóluefnis er í kringum 60-70%. Yfirleitt ganga þrjár inflúensur og bólusetningin við henni getur passað misjafnlega vel. Þórólfur bendir á að í fyrra hafi bólusetningin sem passaði best verið í kringum 60-70% en það sem passaði verst var með 30-40% virkni. „Bólusetningin er það besta sem við höfum. Við höfum ekkert annað til að koma í veg fyrir þetta,“ segir Þórólfur.

Í forgangi í bólusetningu

Sóttvarnalæknir mælist til að nokkrir hópar fólks njóti forgangs við inflúensubólusetningar. Þessir hópar eru fólk eldra en 60 ára, öll börn og fullorðnir sem þjást af langvinnum hjarta-, lungna-, nýrna- og lifrarsjúkdómum, sykursýki, illkynja sjúkdómum og öðrum ónæmisbælandi sjúkdómum, og heilbrigðisstarfsfólk sem annast þessa hópa, auk þungaðra kvenna.