[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ómar fæddist í Reykjavík 16.9. 1940 og ólst þar upp í Holtunum. Hann dvaldi í sveit á sumrin í níu sumur, í Hólmaseli í Flóa, í Kaldárseli og í Hvammi í Langadal.

Ómar fæddist í Reykjavík 16.9. 1940 og ólst þar upp í Holtunum. Hann dvaldi í sveit á sumrin í níu sumur, í Hólmaseli í Flóa, í Kaldárseli og í Hvammi í Langadal. Á unglingsárunum æfði hann og keppti í hlaupagreinum með ÍR 1958-64, var drengjameistari Íslands í 100 m og 300 m hlaupi og boðhlaupi 1958 og keppti í meistaraflokki í knattspyrnu með Ármanni 1970. Hann sigraði í góðaksturskeppni BFÖ 1963, 1969 og 1970 og keppti í rallakstri 1975-85, varð Íslandsmeistari í rallakstri 1980-82 og 1984 en Jón, bróðir hans, var þá aðstoðarökumaður hans. Ómar vann 18 röll af 38 sem hann keppti í 1977-85, þar af öll mót sem Renault-bifreið þeirra bræðra keppti í 1981.

Ómar var í Laugarnesskólanum, Gagnfræðaskólanum við Lindargötu, og í Vonarstræti, stundaði nám við MR og lauk stúdentsprófi 1960. Hann stundaði nám við Flugskóla Helga Jónssonar og lauk atvinnuflugmannsprófi 1968, var flugkennari hjá Flugskóla Helga Jónssonar og Navy Aeroclub á Keflavíkurflugvelli 1969 og vann Frambikarinn í flugkeppni 1970.

Ómar var leikari hjá LR og Þjóðleikhúsinu 1953-66 og hjá LR 1969 og 2007, lék þrisvar í Herranótt og lék í útvarpsleikritum 1953-69.

Ómar var um langt árabil einn vinsælasti skemmtikraftur þjóðarinnar, frá 1958, var skemmtikraftur að aðalstarfi 1962-69 og að aukastarfi frá 1969, skemmti með Sumargleðinni 1971-85, hefur skemmt víða erlendis og var fulltrúi Íslands í norrænum skemmtiþætti í Finnlandi 1967. Þá hefur hann samið fjölda texta og laga, hefur sungið inn á marga tugi hljómplatna frá 1960 og hafa komið út eftir hann textar í hundraðavís á hljómplötum hans og annarra tónlistamanna.

Ómar var bílablaðamaður hjá Vísi 1978-83, sinnti dagskrárgerð hjá RÚV hljóðvarpi 1955 og 2015, var fréttamaður og dagskrárgerðarmaður hjá Sjónvarpinu 1969-88 og 1995-2006 og hjá Stöð 2 1988-1995.

Á löngum og farsælum ferli í fréttamennsku og dagskrárgerð hefur Ómar ekið um landið þvert og endilangt og flogið yfir því á vél sinni, TF-FRÚ, og verið óþreytandi að kynna fyrir löndum sínum íslenska náttúru, frá ystu annesjum til öræfa. Auk þess hefur hann verið naskur á eftirminnilegt mannlíf og kynlega kvisti frá þéttbýli að mörkum byggðar. Hann er margfróður um sögu lands og þjóðar og þekkir landið eins og lófann á sér.

Ómar er ötull baráttumaður fyrir verndun náttúru og menningar, barðist gegn byggingu Kárahnjúkavirkjunar og gaf út bókina Kárahnjúkar – með og á móti, árið 2004. Að kvöldi 26.9. 2006 leiddi hann rúmlega tíu þúsund manns í mótmælagöngu niður Laugaveginn gegn stóriðjustefnu ríkisstjórna.

Rit Ómars eru Í einu höggi, skáldsaga, 1990; Heiturðu Ómar? æskuminningar, 1991; Flugleiðir í Íslandsflugi, kennslubók, 1992; Manga með svartan vanga, söguþáttur, 1993; Fólk og firnindi, 1994; Mannlífsstiklur, 1996; Ýkt eðlilegt, unglingasaga, 1998; Ljósið yfir landinu, þættir, 1999; Kárahnjúkar – með og á móti, 2004; Ómar í hálfa öld, lagatextar, 2010, og Manga með svartan – sagan öll, 2013.

Þá komu út tveir diskar með lögum og textum eftir Ómar, Ómar lands og þjóðar og Sumarfrí.

Ómar er formaður Íslandshreyfingarinnar – lifandi lands frá 2007 og stjórnarmaður í Framtíðarlandinu.

Dagur íslenskrar náttúru

Ómari var veitt heiðursorða WAEO 1985, fjölmiðlaverðlaun umhverfisráðuneytis og riddarakross íslensku fálkaorðunnar 1998, var tilnefndur til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2002, voru veitt Nordfag-verðlaunin, sjónvarpsmaður Norðurlanda, 2004, Verðlaun Seacology-samtakanna 2008, hefur hlotið fimm Edduverðlaun, þ.ám. heiðursverðlaun Eddunnar, var Maður ársins hjá hlustendum Rásar 2 árið 2003, hjá fréttastofu Stöðvar 2, Rás 2 og Mannlífi 2006 og hlaut heiðursskjal HÍT á 100 ára afmæli hljómplötunnar á Íslandi. Hinn 16.9. 2010, á 70 ára afmæli Ómars, var ákveðið að sá dagur yrði upp frá því tileinkaður íslenskri náttúru. Þetta er viðurkenning á framlagi hans til náttúruverndar og almenningsfræðslu um mikilvægi íslenskrar náttúru.

En er Ómar bjartsýnn fyrir hönd náttúruverndar á komandi tímum?

„Ef maður er svartsýnn og gerir ekki neitt, þá er það vísasta leiðin til að tapa leiknum. Slík afstaða er því ekki í boði. Það eina sem er í boði er bjartsýni og eldmóður. Auðvitað syrtir oft í álinn. En með bjartsýni og baráttuþreki munum við gera jörðina að betri heimkynnum fyrir komandi kynslóðir og lífríkið allt.“

Fjölskylda

Ómar kvæntist 31.12. 1961 Helgu

Jóhannsdóttur, f. 25.11. 1942, fyrrv. forstöðumanni. Foreldrar hennar voru Jóhann Jónsson, f. 31.5. 1901, fórst með bv. Verði 29.1. 1950, vélstjóri á Patreksfirði, og k.h., Lára Sigfúsdóttir, f. 8.10. 1903, d. 16.2. 1972, húsfreyja.

Börn Ómars og Helgu eru Jónína Ómarsdóttir, f. 29.4. 1963, kennari í Reykjavík en maður hennar er Óskar Olgeirsson, vélvirki og stjórnarformaður; Ragnar Ómarsson, f.

21.9. 1963, byggingafræðingur í Reykjavík en kona hans er Kristbjörg Clausen, bókasafnsfræðingur og söngkona; Þorfinnur Ómarsson, f. 25.10. 1965, fjölmiðlafræðingur og framkvæmdastjóri í Brussel en sambýliskona hans er Ástrós Gunnarsdóttir, listdansari og leikstjóri; Örn Ómarsson, f. 22.11. 1967, tónlistarmaður í Reykjavík; Lára Ómarsdóttir, f. 27.3. 1971, fréttamaður í Reykjavík en maður hennar er Haukur Olavsson markaðsfulltrúi; Iðunn Ómarsdóttir, f. 8.10. 1972, kennari í Mosfellsbæ en maður hennar er Friðrik Garðar Sigurðsson kennari; Alma Ómarsdóttir, f. 9.9. 1974, fjölmiðlafræðingur og fréttamaður, búsett í Mosfellsbæ en maður hennar er Ingi Ragnar Ingason kvikmyndagerðarmaður.

Barnabörn Ómars og Helgu eru nú 21 talsins.

Systkini Ómars eru Edvard Sigurður Ragnarsson, f. 4.8. 1943, kennari í Mosfellsbæ; Jón Rúnar Ragnarsson, f. 12.1. 1945, framkvæmdastjóri í Kópavogi; Ólöf Ragnarsdóttir, f. 16.6. 1948, kennari í Kópavogi; Guðlaug Ragnarsdóttir, f. 20.8. 1951, sjúkraþjálfari í Stokkhólmi; Sigurlaug Þuríður Ragnarsdóttir, f. 27.7. 1964, listfræðingur í Kópavogi.

Foreldrar Ómars voru Jónína Rannveig Þorfinnsdóttir. f. 16.9. 1921, d. 10.4. 1992, húsfreyja, og Ragnar Edvardsson, f. 24.6. 1922, d. 21.7. 2002, bakarameistari í Reykjavík.

Í tilefni afmælisins verður afmælisskemmtun í Salnum í Kópavogi laugardaginn 26.9. þar sem Ómar heldur að sjálfsögðu uppi fjörinu, ásamt Ragnari Bjarnasyni og öðrum óborganlegum vinum sínum.