Átök Kristín Guðmundsdóttir, úr Val, hér fyrir miðri mynd var valin handknattleikskona síðasta keppnistímabils, enda fór hún á kostum með Hlíðarendaliðinu. Hér hún í slag við Steinunni Björnsdóttur og Elísabetu Gunnarsdóttur sem nú eins og fyrra munu leika stór hlutverk hjá Safamýrarliðinu.
Átök Kristín Guðmundsdóttir, úr Val, hér fyrir miðri mynd var valin handknattleikskona síðasta keppnistímabils, enda fór hún á kostum með Hlíðarendaliðinu. Hér hún í slag við Steinunni Björnsdóttur og Elísabetu Gunnarsdóttur sem nú eins og fyrra munu leika stór hlutverk hjá Safamýrarliðinu. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kvennadeildin Ívar Benediktsson iben@mbl.is Alls taka 14 lið þátt í Olís-deild kvenna á þessari leiktíð. Aldrei hafa fleiri lið leikið saman í efstu deild kvenna hér á landi. Leikið verður heima og að heiman alls 26 umferðir.

Kvennadeildin

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Alls taka 14 lið þátt í Olís-deild kvenna á þessari leiktíð. Aldrei hafa fleiri lið leikið saman í efstu deild kvenna hér á landi. Leikið verður heima og að heiman alls 26 umferðir. Að deildarkeppninni lokinni tekur við átta liða úrslitakeppni eins og tvö síðustu undangengin keppnistímabil.

Liðin tólf sem tóku þátt í Olís-deildinni á síðasta keppnistímabili sendu öll lið til leiks á nýjan leik. Auk þess ákvað Afturelding að senda sitt lið til leiks eftir árs fjarveru í utandeildinni þar sem Mosfellingar stóðu uppi sem sigurvegarar í vor.

Fjölnir tekur þátt í Olís-deild kvenna í fyrsta skipti og leikur liðsins á heimavelli við HK á síðasta laugardag, sem Fjölnisliðið gerði sér lítið fyrir og vann, var um leið fyrsti handboltaleikur Fjölnis í efstu deild ef frá eru taldir leikir sameiginlegs liðs Víkings og Fjölnis í efstu deild karla fyrir um áratug.

Ákveðið var á ársþingi HSÍ í vor að taka upp keppni í 1. deild kvenna til viðbótar við efstu deild, Olís-deildina, frá og með keppnistímabilinu 2016-2017 ef 14 lið eða fleiri skrá sig til leiks. Þá verður fækkað í Olís-deildinni niður í átta lið og þau lið sem standa eftir reyni með sér í 1. deild. Þessi breyting er þó bundin við að 14 lið eða fleiri skrái sig til leiks. Verði þau 13 eða færri verður áfram leikið í einni deild kvenna auk utandeildarinnar sem ekki mun taka breytingum þótt af 1. deild verði.

Að talsverðu að keppa í vetur

Niðurröðun í lok móts næsta vor mun þar með ráða hvaða átta lið leika í Olís-deild kvenna keppnistímabilið 2016/2017. Þar af leiðandi er að talsverðu að keppa á nýhafinni leiktíð.

Ef það tekst að koma á fót tveimur deildum ætti það um leið að opna fyrir að fleiri lið skrái sig til keppni í 1. deild þar sem jafnari keppni verður og þau lið sem eiga enn talsvert í land. Eins og staðan er nú í einni deild er gríðarlegur getumunur á milli bestu liðanna og þeirra lakari. Úrslitin eru í takt við það eins og sást m.a. á úrslitum leiks Aftureldingar og Vals í fyrstu umferðinni þar sem munaði 26 mörkum á liðunum þegar upp var staðið.

Eitthvað hefur borið á óánægju með forrðaðamanna eða þjálfara liða í deildinni með þessa breytingu. Eftir því sem næst verður komist ristir sú óánægja ekki djúpt er e.t.v. bundin við þau lið sem eru á mörkunum milli hugsanlegra deilda.

Tímabil Gróttu

Síðasta keppnistímabil var eign Gróttu. Liðið sprakk út undir stjórn Kára Garðarssonar og vann deildina og bikarinn og fagnaði Íslandsmeistaratitli í fyrsta sinn eftir hörku úrslitarimmu við Stjörnuna. Þetta var keppnistímabil Gróttu sem fyrir það hafði aldrei unnið einn af stóru titlunum í meistaraflokki kvenna.

Fram og Stjarnan voru helstu keppinautar Gróttu og um tíma leit út fyrir að Fram myndi veita Seltirningum harðasta keppni. Meiðsli sterkra leikmanna settu strik í reikning Framara þegar á leið og gerðu titilvonir að engu.

Stjörnuliðið seiglaðist áfram eftir erfiða byrjun mótsins þegar nokkrir sterkir leikmenn voru fjarri vegna meiðsla. Stjarnan sótti í sig veðrið og var helsti keppinautur Gróttu áður en yfir lauk ásamt ÍBV, sem gaf sinn hlut ekki eftir fyrr en í oddaleik í undanúrslitum gegn Gróttu.

ÍBV öflugt í úrslitakeppninni

Lið ÍBV lúrði nokkuð frá efstu liðunum allt keppnistímabilið í fyrra en sýndi þegar í úrslitakeppnina var komið að mikið er spunnið í liðið. ÍBV var ekki nema nokkrum andartökum frá að því að slá Gróttu úr leik í undanúrslitum eftir hörkuskemmtilega leiki.

Haukar sýndu góð tilþrif á keppnistímabilinu en meiðsli settu strik í reikninginn í leikmannahópnum á lokasprettinum og eins þegar liðið var komið í undanúrslit bikarkeppninnar.

Valur gekk í gegnum endurnýjun á síðustu leiktíð og mætir örugglega með lið reynslunni ríkara í vetur undir stjórn Alfreðs Arnar Finnssonar. Þá virðist Selfoss vera á góðri leið með að festa sig í sessi sem lið í efstu deild en ekki er langt síðan Selfoss sendi lið til keppni í efstu deild kvenna.

Fylkisliðið tók stutt skref fram á við á síðasta keppnistímabili til að nálgast betri lið deildinnar. Enn vantar þó nokkuð upp á.