Í galleríinu Katrín Guðmundsdóttir glerlistakona á vinnustofu sinni.
Í galleríinu Katrín Guðmundsdóttir glerlistakona á vinnustofu sinni. — Ljósmynd/Gunnar Gunnarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is Í kjallara í heimahúsi á Eskifirði má finna lítið gallerí sem nefnist Verkstæði Kötu og er það í eigu listakonunnar Katrínar Guðmundsdóttur. Þar innandyra úir og grúir af alls kyns listgripum.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Í kjallara í heimahúsi á Eskifirði má finna lítið gallerí sem nefnist Verkstæði Kötu og er það í eigu listakonunnar Katrínar Guðmundsdóttur. Þar innandyra úir og grúir af alls kyns listgripum.

„Þetta verkstæði hefur verið til í um 19 ár,“ segir Katrín í samtali við Morgunblaðið og bendir á að nú einbeiti hún sér einna helst að listmunum sem gerðir eru úr gleri.

Katrín hefur þó í gegnum tíðina einnig gert ýmsa skemmtilega muni úr öðrum efnivið, s.s. leirklumpum og járni og um tíma bjó hún einnig til skartgripi.

„Ég er þó hætt því,“ segir hún. „En ef fólk er að leita að einhverju sérstöku fyrir sig þá get ég gert það. Margir hafa komið til mín með ákveðnar hugmyndir sem ég hef svo reynt að framkvæma,“ segir Katrín og bætir við að innblástur sinn sæki hún til að mynda til náttúrunnar. Sumir listmunir hennar, s.s. vínglös sem lognast hafa út af, eru hins vegar sprottnir úr kímnigáfu fremur en öðru.