Í Taílandi Bergþór á afmælisdegi sínum við Phi Phi-eyju í fyrra.
Í Taílandi Bergþór á afmælisdegi sínum við Phi Phi-eyju í fyrra.
Bergþór Ólason á fertugsafmæli í dag en hann er framkvæmdastjóri Loftorku í Borgarnesi. „Lífið snýst mikið um steypu og einingar þessi misserin.

Bergþór Ólason á fertugsafmæli í dag en hann er framkvæmdastjóri Loftorku í Borgarnesi. „Lífið snýst mikið um steypu og einingar þessi misserin. Meginframleiðslan hjá okkur eru húseiningar í allar gerðir bygginga, ásamt fjölbreyttri sérframleiðslu, hvort sem það eru fíngerðar innréttingar eða stórar einingar fyrir stóriðju eða brúarframkvæmdir og allt þar á milli og svo framleiðum við steinrör og brunna í frárennslislagnir.“

Þótt Bergþór starfi í Borgarnesi býr hann á Akranesi. „Ég er ættaður héðan, er Skagamaður og Húnvetningur að uppruna en ólst upp í Borgarnesi.“

Bergþór nýtir frídaga sína í stangveiði og fer til rjúpna á haustin. „Ég hef einnig verið að veiða hreindýr undanfarin ár, var ekki dreginn út í ár en treysti á að komast að ári.

Í stangveiðinni fer ég mest í Grímsá í Borgarfirði. Það var alveg prýðileg veiði í henni obbann af sumrinu. Ég hef verið að leiðsegja þar síðan um tvítugt og síðan ég komst á fullorðinsaldur hef ég haldið einni viku þar uppfrá með góðum vinum sem hafa veitt í ánni í áratugi.“

Foreldrar Bergþórs eru Óli Jón Gunnarsson, fv. bæjarstjóri í Borgarnesi og Stykkishólmi og fv. framkvæmdastjóri Loftorku og núverandi starfsmaður á plani, og Ósk Bergþórsdóttir, loftskeytamaður og húsmóðir. Bræður Bergþórs eru Jóhann Gunnar flugmaður og Rúnar háskólanemi.

„Planið á afmælinu er að líta til með hestum framan af degi með kærustunni og fara síðan út að borða með fjölskyldunni og svo verður slegið upp partíi síðar.“