Viti Dyrhólaey.
Viti Dyrhólaey.
Aðeins sjö vitaverðir eru eftir í landinu og enginn þeirra í fullu starfi.

Aðeins sjö vitaverðir eru eftir í landinu og enginn þeirra í fullu starfi. Í nágrannalöndunum eru fáir vitaverðir og hérlendis eins og þar líður ekki á löngu þar til þeirra verður ekki þörf, að sögn Sigurðar Áss Grétarssonar, framkvæmdastjóra siglingasviðs Vegagerðarinnar.

Vegagerðin annast rekstur landsvitakerfisins og sér stofnunin um rúmlega 100 ljósvita. Landsvitar eru í eigu og umsjá ríkisins en hafnarvitar, sem vísa leið inn til hafnar, eru í eigu og umsjá sveitarfélaga. Á vef Vegagerðarinnar kemur fram að Hafnarvitakerfið er byggt upp af tæplega 20 ljósvitum, um 90 innsiglingarljósum á garðsendum og bryggjum, rúmlega 80 leiðarljósalínum og tæplega 50 baujum er vísa leið í innsiglingum að höfnum.

Í mars sem leið var sagt upp 19 vitavörðum með tímavinnusamninga og tóku uppsagnirnar gildi 1. júlí. Nú eru tveir vitaverðir eftir í hlutastarfi hjá Vegagerðinni, á Bjargtöngum og í Dyrhólaey, og fimm með tímavinnusamninga án fastráðningar, í Grímsey, Vestmannaeyjum, á Gjögri, Sauðanesi og Dalatanga.