Úrslitastund Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.

Úrslitastund

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

Úrslitin geta ráðist í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í dag, ekki bara hvað titilbaráttuna varðar heldur fengist niðurstaða í það hvaða lið fellur með Keflavík og þá getur skýrst hvert verður fjórða liðið sem verður fulltrúi Íslendinga í Evrópukeppninni á næsta tímabili.

Næstsíðasta umferð deildarinnar fer öll fram í dag svo framarlega sem veðurguðirnir leyfa. Veðurspáin fyrir daginn í dag var ekki glæsileg og hætt er við því að Kári verði í aðahlutverki í leikjunum sex sem eiga allir að hefjast klukkan 14 en verður mögulega seinkað eða frestað til morgundagsins.

FH-ingar standa með pálmann í höndunum í titilbaráttunni en forysta þeirra á Breiðablik er fimm stig. FH-ingar taka á móti spútnikliði Fjölnis í Krikanum í dag og með sigri eða að Blikar vinni ekki sinn leik fer Íslandsbikarinn á loft í Firðinum laust fyrir klukkan 16. Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, verður alltént í Krikanum tilbúinn að krýna FH-inga sem Íslandsmeistara í sjöunda sinn en FH-ingarnir þrá það mjög heitt að lyfta bikarnum á loft á heimavelli sínum, minnugir „harmleiksins“ á móti Stjörnumönnum í fyrra. En kálið er ekki sopið fyrr en í ausuna er komið. Fjölnismenn hafa sýnt það í sumar að þeir eru með stórgott fótboltalið og þeir hafa enn að miklu að keppa. Grafarvogsliðið er í baráttu við KR-inga um fjórða og síðasta Evrópusætið og Fjölnismenn koma því til með að selja sig dýrt í dag og eru svo sannarlega til í að koma í veg fyrir að kampavíninu verði sprautað í allar áttir um Kaplakrikann í dag.

Blikar halda í veika von

Með sigrinum á móti FH í síðustu umferð hélt Breiðablik lífi í deildinni og veikum vonum um að skáka FH-ingum í titilbaráttunni. Blikarnir þurfa að vinna báða sína leiki gegn ÍBV í dag og á móti Fjölni í lokaumferðinni og stóla á FH-ingar misstígi sig lokaumferðunum. Markmiðunum hefur verið náð hjá þeim grænklæddu. „Evrópusætið er í höfn en á meðan enn er von þá gefumst við ekki upp í titlabaráttunni,“ sagði Arnar Grétarsson, þjálfari Breiðabliks, eftir sigurinn á móti FH. Blikarnir geta svo sannarlega borið höfuðið hátt eftir tímabilið hvernig svo sem úrslitin verða í síðustu tveimur leikjunum. Framfarir liðsins frá síðustu leiktíð eru mjög miklar. Sjöunda sætið varð hlutskipti Blikanna í fyrra og stigin 27. Í dag er liðið með 40 stig í 2. sæti deildarinnar.

Leiknir á bjargbrúnni

Leiknismenn hanga á bjargbrúnni og þeir kveðja deildina í dag takist þeim ekki að vinna KR í „Ghettóinu“. Ekki er reyndar víst að sigur dugi til því nái ÍBV að leggja Breiðablik að velli er ljóst að Leiknir fylgir Keflavík niður. Miðað við frammistöðu KR síðustu vikurnar þá ættu möguleikar Leiknismanna á að landa langþráðum og lífsnauðsynlegum sigri að vera fyrir hendi en það sem gæti vakið leikmenn KR-inga af þyrnirósarsvefninum er sá raunveruleiki að Evrópusætið er í hættu. Fjölnir er þremur stigum á eftir KR en þessi tvö lið eru þau einu sem berjast um fjórða og síðasta Evrópusætið sem í boði er. Tapi Fjölnir fyrir FH þá dugar KR jafntefli í dag til að gulltryggja Evrópusætið.

Stjarnan og KR mestu vonbrigði

KR og Stjarnan eru þau lið sem valdið hafa mestu vonbrigðum í sumar og skammt þar á eftir koma Víkingar. Titilvörn Stjörnumanna varð að engu snemma á leiktíðinni og nú snúast síðustu leikir liðsins hreinlega um að bjarga andlitinu. Ríkjandi meistarar virðast hafa vanmetið styrk leikmannahópsins en þeim tókst ekki að fylla skörð þeirra leikmanna sem fóru frá liðinu nógu vel og leikmenn sem blómstruðu í fyrra hafa ekki náð sér á strik.

KR-liðið leit gríðarlega vel út framan af tímabili og eftir 3:1 sigur gegn FH-ingum í Kaplakrika í 12. umferðinni sá undirritaður fátt annað í spilunum en að Vesturbæjarliðið tæki tvennuna í ár. En annað hefur komið á daginn. Það hrökk hreinlega allt í baklás í Vesturbænum og aðeins þrír sigurleikir frá sigrinum sæta í Krikanum segja meira en mörg orð. Vonbrigðin eru mikil á meðal allra KR-inga með tímabilið og tapist Evrópusætið þá held ég að Bjarni Guðjónsson eigi erfitt með að halda starfi sínu. Ekki er gott að segja til um það hvað olli þessari niðursveiflu hjá KR-ingum en ástæðurnar eru örugglega margar og sitt sýnist hverjum. Það er hægt að benda á nokkra hluti. Til dæmis slokknaði algjörlega á dönsku leikmönnunum Jacob Toppel Schoop og Sören Fredriksen, sem byrjuðu svo vel, miklar breytingar á sóknarlínunni á milli leikja, bakvarðastöðurnar hafa verið vandræðastöður og upphlaup í kringum Gary Martin og Þorstein Ragnarsson. Ég er sannfærður um KR-ingar ná vopnum sínum á nýjan leik enda mikill metnaður á þeim bænum.