[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Hlutfall óverðtryggðra íbúðalána af íbúðalánum til heimila, að frádregnum uppgreiðslum, hefur aukist í ár. Meginástæðan er sú að ný verðtryggð íbúðalán halda ekki í við uppgreiðslur og skuldaniðurfærsluna.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Hlutfall óverðtryggðra íbúðalána af íbúðalánum til heimila, að frádregnum uppgreiðslum, hefur aukist í ár.

Meginástæðan er sú að ný verðtryggð íbúðalán halda ekki í við uppgreiðslur og skuldaniðurfærsluna.

Hluti nýrra lána fer í að greiða upp eldri lán, þ.e. í uppgreiðslur. Til dæmis þegar lántaki tekur 20 milljóna verðtryggt lán, þar af 10 milljónir til uppgreiðslu á eldra láni.

Efst hér til hliðar má sjá tvö gröf sem byggjast á tölum úr bankakerfinu, að Íbúðalánasjóði og lífeyrissjóðum undanskildum.

Þessi gröf sýna ný íbúðalán að frádregnum uppgreiðslum.

Samkvæmt þessum gögnum, sem tekin voru saman af Seðlabankanum að beiðni Morgunblaðsins, er hlutfall verðtryggðra lána á fyrstu 8 mánuðum ársins um 61%. Hlutfall óverðtryggðra lána er hins vegar 39,3%.

Samkvæmt þessum gögnum hefur hlutfall nýrra verðtryggðra íbúðalána til heimila minnkað lítillega milli ára, eða úr 64,3% allt árið í fyrra í 60,9% fyrstu átta mánuði þessa árs.

Þetta er talsverð breyting frá árinu 2013 þegar hlutföllin voru þveröfug. Hlutfall óverðtryggðra lána allt árið 2013 var þannig 61,6%.

Vegna verkfalls hjá BHM var kaupsamningum ekki þinglýst í apríl, maí og hluta júní. Það seinkaði lántökum sem skýrir að hluta aukninguna í lántökum í júlí og ágúst.

Á vissan hátt kemur á óvart að hlutfall verðtryggðra lána sé ekki hærra, enda er verðbólgan nú með minnsta móti. Á móti kemur að framan af árinu var spáð meiri verðbólgu á síðustu mánuðum ársins, sem aftur kann að hafa haft áhrif á lántökur.

Miklar uppgreiðslur hjá ÍLS

Þessar tölur segja hins vegar ekki alla söguna. Þannig hafa miklar uppgreiðslur hjá Íbúðalánasjóði (ÍLS) frá ársbyrjun 2013 haft mikil áhrif á þróun nýrra verðtryggðra íbúðalána til heimila á tímabilinu.

Samkvæmt lauslegum útreikningum blaðamanns lækkuðu verðtryggð íbúðalán til heimila hjá Íbúðalánasjóði á fyrstu átta mánuðum ársins um 39,4 milljarða króna.

Við þessa útreikninga er gengið út frá að hlutfall heimila af heildaruppgreiðslum á fyrstu átta mánuðum ársins, sem voru 20,3 milljarðar, sé 81%, eða eins og hlutfall lána til einstaklinga af heildarlánasafni sjóðsins, sem er nú 692 milljarðar. Samkvæmt heimildum blaðsins er þetta vanmat, enda sé vægi heimila í uppgreiðslum í raun meira. Þá er hér horft framhjá ráðstöfun séreignasparnaðar til að greiða niður lánin.

Samkvæmt þessu lækka heildaruppgreiðslur heimila hjá sjóðnum á þessu tímabili í 16,45 milljarða. Við þá tölu bætast um 25,63 milljarðar, sem er áætluð niðurfærsla lána hjá sjóðnum vegna leiðréttingarinnar, á fyrstu átta mánuðum ársins. Til samanburðar voru ný íbúðalán til heimila alls 2,65 milljarðar á tímabilinu. Niðurstaðan er því lækkun lánasafnsins um 39,43 milljarða á fyrstu átta mánuðum ársins. Það er um 15 milljörðum meira en öll verðtryggð íbúðalán hjá bönkunum á tímabilinu.

Samsvarandi tala hjá Íbúðalánasjóði allt árið 2014 er 16,7 milljarðar og rúmir 4,9 milljarðar allt árið 2013. Samkvæmt þessum lauslegu útreikningum hefur lánasafnið hjá ÍLS lækkað um 61 milljarð hjá heimilum frá ársbyrjun 2013. Það stendur nú í 560 milljörðum. Trúnaður ríkir um þessi gögn hjá sjóðnum en sérfræðingur ÍLS veitti hins vegar ábendingar sem útreikningarnir byggjast á. Vegna leiðréttingarinnar eru þessir útreikningar ekki einfaldir og ber að taka viljann fyrir verkið. Benda þessar tölur til að ný verðtryggð íbúðalán ÍLS og bankanna til heimila haldi ekki í við uppgreiðslur og áhrif skuldaniðurfærslunnar á heildarfjárhæð verðtryggðra lána.

Spá nú minni verðbólgu

Samkvæmt nýjum tölum Hagstofu Íslands var verðbólgan 1,9% í september, borið saman við 2,2% í ágúst. Það er heldur meiri lækkun en greiningardeildir bankanna spáðu. Það hafði áhrif til lækkunar að verð á flugfargjöldum til útlanda lækkaði um 24,6% og verð á bensíni og olíum um 5,3%.

Líkt og í fyrrahaust dregur snörp lækkun olíuverðs úr verðbólgu og styrkir kaupmátt heimila.

Fram kemur í nýrri skýrslu Greiningar Íslandsbanka að í ljósi þessara nýju verðbólgutalna hafi hún endurskoðað verðbólguhorfur á 12 mánaða grundvelli.

Jón Bjarki Bentsson, sérfræðingur hjá Greiningu bankans, segir Greininguna nú spá því að verðbólgan verði að jafnaði undir 2,5% verðbólgumarkmiði Seðlabankans fram á mitt næsta ár. Samkvæmt spánni, sem sé til bráðabirgða (skammstafað brb. hér fyrir ofan), verði það ekki fyrr en í lok árs 2016 sem verðbólgan verður orðin talsvert yfir markmiðinu.

Þetta er veruleg breyting frá spá Greiningar Íslandsbanka 12. júní sl., þegar hún spáði því að verðbólgan færi yfir markmið Seðlabankans á 4. ársfj. í ár.

Gangi nýja spáin hjá Greiningu Íslandsbanka eftir verður verðbólgan undir markmiði Seðlabankans í um tvö og hálft ár, eða frá febrúar 2014 til sumars 2016.

Markmiðið var tekið upp í mars 2001. Þar áður hafði markmiðið náðst í 12 mánuði samfleytt frá nóvember 2002 til október 2003.

Lengsta stöðugleikaskeiðið á öldinni er því að lengjast frekar.

Hæst hjá Arion banka
» Hjá Landsbankanum var hlutfall verðtryggðra lána af nýjum íbúðalánum 61,1%, miðað við lánsfjárhæð, 1.1 til 31.8.
» Hjá Íslandsbanka var hlutfall verðtryggðra lána um 59% og hjá Arion banka var hlutfall óverðtryggðra lána rétt yfir 50% og var það hvergi hærra.
» Ekki var óskað eftir því að tekið yrði tillit til uppgreiðslna við samantekt nýrra íbúðalána.