Óvæntar vendingar Nikolaj Lie Kaas er sérlega fráhrindandi í hlutverki fíkilsins og smáglæpamannsins Tristans í nýjustu mynd Susanne Bier.
Óvæntar vendingar Nikolaj Lie Kaas er sérlega fráhrindandi í hlutverki fíkilsins og smáglæpamannsins Tristans í nýjustu mynd Susanne Bier.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikstjóri: Susanne Bier. Leikarar: Nikolaj Coster-Waldau, Ulrich Thomsen, Maria Bonnevie, Nikolaj Lie Kaas og Lykke May Andersen. Danmörk, 2014. Danska, 102 mín. Flokkur: Sjónarrönd.

Susanne Bier er einn þekktasti leikstjóri Dana. Hún á fjölda mynda að baki og fékk Óskarsverðlaunin fyrir mynd sína Hefndin ( Hævnen ) árið 2011. Í myndinni Annað tækifæri segir frá tveimur lögregluþjónum, Andreasi og Simoni. Andreas er hamingjusamur fjölskyldufaðir og elskar nokkurra mánaða gamlan son sinn. Simon situr hins vegar að sumbli á næturklúbbum á síðkvöldum og virðist við það að missa stjórn á lífi sínu.

Félagarnir eru einn daginn kallaðir til vegna heimilisofbeldis og aðkoman er ekki geðsleg. Við þeim blasir eiturlyfjagreni þar sem býr par með lítinn dreng á aldur við son Andreasar. Vanrækt barnið sést liggja í eigin skít og hlandi. Andreas þekkir karlinn í íbúðinni, Tristan, og ofbýður ástandið. Honum finnst glæpsamlegt að svona fólk fái að ala upp barn og er ekkert að fela tilfinningar sínar. Helst vill hann láta taka barnið af þeim og skilur ekki í kerfi, sem tryggir rétt slíks ógæfufólks.

Heimili Andreasar og eiturlyfjagrenið eru algerar andstæður, sem Bier dregur upp skörpum dráttum. Annað heimilið er eins og glansmynd, hitt óhreint og ömurlegt. Það eina sem amar að er að sonur Andreasar grætur á nóttunni, en það þekkja allir foreldrar.

Nokkru eftir að félagarnir eru kallaðir í eiturlyfjagrenið dynur ógæfan yfir og heimur Andreasar splundrast. Án þess að segja of mikið þá grípur hann til örþrifaráðs til að bjarga fjölskyldu sinni og kemur eiturlyfjagrenið þar við sögu.

Mikið einvalalið leikara kemur fram í myndinni. Nikolaj Coster-Waldau, sem margir þekkja sem Jamie Lannister í þáttunum Krúnuleikarnir , fer á kostum í hlutverki Andreasar. Maria Bonnevie, sem varð þekkt – í það minnsta á Íslandi – fyrir leik sinn í mynd Hrafns Gunnlaugssonar, Hvíti víkingurinn , er mjög eftirminnileg í hlutverki Anne, eiginkonu Andreasar. Þá er nauðsynlegt að hrósa Nikolaj Lie Kaas, sem oft hefur leikið geðþekkari persónur, fyrir túlkun sína á smáglæpamanninum Tristan. Lykke May Andersen, sem er fyrrverandi fyrirsæta, er frábær í hlutverki Sanne, kúgaðrar barnsmóður Tristans. Bier mun hafa talið hana á að leika í myndinni og á hún ugglaust eftir að stíga fleiri spor á leikarabrautinni.

Ulrich Thomsen er einnig fínn í hlutverki drykkfelldu löggunnar, þótt hann falli nokkuð í skuggann af meðleikurum sínum. Í fyrstu er eins og myndin muni að einhverju leyti hverfast um vandamál hans, en þegar á líður snúast hins vegar hlutverkin við og hann verður haldreipi félaga síns.

Annað tækifæri er sálfræðitryllir og á köflum verður óþægilegt að horfa á hana. Örþrifaráð Andreasar reynist vitaskuld glapræði, en það getur verið erfitt að vinda ofan af atburðarás þegar hún er hafin.

Mótleikur Tristans er síðan öflugur, þótt hann geri sér engan veginn grein fyrir því að hann er leiksoppur í ráðabruggi lögreglumannsins.

Bier vekur margar spurningar um hlutskipti mannsins, um gæfu og gjörvileika, fátækt og velmegun, hið maklega og ómaklega. Áhorfandinn fær samúð með Andreasi og Anne, en fyllist ógeði á Tristan og Sanne. Samfélagið er tilbúið að trúa öllu upp á þau síðarnefndu. Fyrirmyndarfjölskyldunni er teflt fram gegn dreggjum samfélagsins. Að vissu leyti er myndin tilraun til að fá áhorfandann til að afhjúpa eigin fordóma, þótt ekki sé víst að margir gangi út af henni staðráðnir í að næst muni þeir ekki dæma eftir útlitinu.

Annað tækifæri er um margt forvitnileg mynd, en söguþráðurinn er á köflum þannig að ýta þarf skynseminni til hliðar til að taka mark á henni. Þar er spurningin hvernig venjulegur lögregluþjónn hafi efni á einbýlishúsi við sjóinn minnsta vandamálið. Fantaleikur, ísmeygilegur óhugnaður og óvæntar fléttur lyfta myndinni hins vegar upp.

Karl Blöndal

Háskólabíó: 26. sept. kl. 16.00, 3. okt. kl. 16.00, 4. okt. kl. 22.00.