Bjór hefur lengi verið hryggjarstykki í stjórnmálum. Fylgi Bjartrar framtíðar tók dýfu á pari við það sem Volkswagen gerir nú þegar þingmaður flokksins opinberaði andstöðu sína við vínfrumvarpið.

Bjór hefur lengi verið hryggjarstykki í stjórnmálum. Fylgi Bjartrar framtíðar tók dýfu á pari við það sem Volkswagen gerir nú þegar þingmaður flokksins opinberaði andstöðu sína við vínfrumvarpið. Enn í dag þurfa forræðishyggjumenn fortíðar að lesa glefsur úr eigin ræðum frá því þegar bjórinn var leyfður fyrir rúmum aldarfjórðungi. Skemmri tími mun líða þar til andstæðingar vínfrumvarpsins munu, eftir að það verður orðið að lögum, horfa á sjálfa sig í speglinum meðan þeir bursta tennurnar og hugsa: „Hvað var ég eiginlega að pæla.“

Bjór hefur ekki bara verið pólitískt bitbein, hann hefur líka verið pólitískur drifkraftur. Þannig man ég ekki eftir einu SUS-þingi, á þeim árum þegar ég tók þátt í svoleiðis, þar sem skemmtanahöld voru ekki að minnsta kosti í farþegasætinu. Eðlilega, eftir langan dag af málefnavinnu vill fólk lyfta sér upp. Bjór hefur einnig – svo segir sagan að minnsta kosti – verið notaður til að draga fólk til liðs við fylkingar, hvort sem um ræðir innan ungliðahreyfinga stjórnmálaflokka eða stúdentafélaga í háskóla, og þá einkum þegar kosningar fara að höndum. Látum vera að skoða hvort ungmennum hafi verið gefin loforð um mat og vín. Það er hins vegar staðreynd í kosningum að sá vinnur sem smalar. Þá skipta málefni yfirleitt minna máli en hver kynntist flestum í menntaskóla og hversu góður hann eða hún er í að telja það fólk á að mæta á kjörstað.

Góður maður, maður sem vildi leyfa flestum sem flest, sagði eitt sinn við mig að kannski væri rétt að banna ungliðahreyfingar. Svo glotti hann. Þaðan kæmu allir eins út – ýmist í bláum bleiser, þröngum rauðum buxum eða hippamussu. Parist saman við staðalímyndir af ungliðahreyfingum stjórnmálaflokka eftir þörfum.

Þegar ungliðahreyfingunum sleppir og þau sem innan þeirra starfa, fólk sem í flestum tilvikum er fólk drifið áfram af hugsjónum, sækjast eftir kjörnum embættum tekur yfirleitt hið sama við. Nema að þessu sinni er baráttan um atkvæði ekki lengur við samflokksmenn heldur pólitíska andstæðinga og stjórnarráð eða sveitarstjórastóll að veði. Þá dugar ekki lengur að bjóða í partý eftir kosningarnar – loforðin þurfa að verða stærri og lengi býr að fyrstu gerð. Þannig er ágætis hugmynd að lofa fólki peningagjöfum og segja að um hreint og klárt réttlætismál sé að ræða. Ef það dugar ekki til sannfæringar má skreyta loforðatertuna með loforðum um jarðgöng. Reikningurinn er ekki lengur borgaður af frambjóðendum sjálfum heldur okkur öllum.

Einn er, eða var, sá maður sem sagðist aldrei hafa beðið nokkurn mann um að kjósa sig. Þrátt fyrir það var hann sennilega sá stjórnmálamaður sem hafði hvað víðasta skírskotun og naut stuðnings úr flestum áttum, stefnum og stéttum og það þrátt fyrir að vera samkvæmt öllum skilgreiningum langt til hægri við okkur flest. Það er kannski ekki sanngjarnt að gera þá kröfu að fólk geti unnið stuðning fólks með því að vera samkvæmt sjálfu sér á tuttugu ára þingferli, en það má að minnsta kosti muna að það er mögulegt. gunnardofri@mbl.is

Gunnar Dofri

Höf.: Gunnar Dofri