[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Stefán E. Stefánsson ses@mbl.

Baksvið

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Kjörnum endurskoðendum hlutafélaga verður skylt að sitja hluthafafundi og svara fyrirspurnum hluthafa um allt sem varða kann reikningsskil viðkomandi félags og fjárhagsleg málefni þess, ef frumvarp til laga um breytingu á hlutafélagalögum, sem Vilhjálmur Bjarnason alþingismaður hefur lagt fram, nær fram að ganga.

Reynslan kallar á breytingar

Vilhjálmur segir að nokkrar ástæður séu fyrir því að hann beiti sér fyrir lagabreytingunni.

„Í fyrsta lagi þarf að skerpa á því að hinn kjörni endurskoðandi er kjörinn af hluthöfum og hann hefur það hlutverk að fylgjast með rekstri félagsins og það felur í sér eftirlit með stjórninni einnig. Því er afar óeðlilegt að hluthafar geti aðeins átt í samskiptum við endurskoðanda félagsins í gegnum stjórnina. Nauðsynlegt er að tryggja milliliðalaus samskipti þarna á milli. Í öðru lagi hef ég persónulega reynslu af því að hafa beint spurningum til endurskoðanda á aðalfundi félags þar sem ég var hluthafi. Hann hafði gögnin í möppu fyrir framan sig en neitaði að svara fyrirspurn minni. Það er ekki hægt að hafa hlutina með þessu móti lengur,“ segir Vilhjálmur.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að tillagan byggist á því fyrirkomulagi sem innleitt hefur verið í hlutafélagalög í Svíþjóð.

Fyrrnefnt frumvarp hefur ekki komið til umsagnar hjá Félagi löggiltra endurskoðenda en Sturla Jónsson, formaður félagsins, segir í samtali við Morgunblaðið að það gæti verið til bóta að skerpa á þeim ákvæðum sem taka til upplýsingaskyldu kjörinna endurskoðenda.

„Tillagan sem lögð hefur verið fram felur í sér viðbót við 91. grein hlutafélagalaganna og fjallar um upplýsingaskyldu endurskoðenda varðandi málefni sem skipta máli um mat á ársreikningi félags og stöðu þess að öðru leyti eða geta haft áhrif á afstöðu hluthafa til mála sem ákvörðun á að taka um á aðalfundi.“

Sturla segist þó setja ákveðið spurningarmerki við ákvæðið eins og það standi í frumvarpinu. Tryggja þurfi að það aflétti ekki trúnaði um gögn eða upplýsingar sem nauðsynlegt er að trúnaður ríki um.

„Það má skilgreina nánar til hvaða upplýsinga í rekstri félags ákvæðið á að ná því ákveðnar upplýsingar verður að ríkja trúnaður um, svo sem persónuupplýsingar,“ bætir Sturla við.

Lítur einnig til lífeyrissjóða

Vilhjálmur segir að ákvæðið sem hann vill bæta við 91. grein hlutafélagalaganna ætti einnig mögulega heima í lögum um ársfundi lífeyrissjóða.

„Það er full ástæða til að kanna þann möguleika að innleiða samskonar ákvæði í þau lög sem gilda um lífeyrissjóði. Það væri mjög til bóta ef sjóðfélagar hefðu aðgengi að kjörnum endurskoðanda síns sjóðs á aðalfundi.“