[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
England Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.

England

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

Frakkinn ungi, Anthony Martial, hefur komið eins og stormsveipur inn í enska fótboltann en þessi 19 ára rándýri táningur hefur nú skorað fjögur mörk í fyrstu fjórum leikjum sínum með Manchester United á 225 mínútum.

Það voru margir sem ráku upp stór augu þegar United festi kaup á hinum 19 ára gamla Martial á lokadegi félagaskiptagluggans frá Monaco og reiddi fram hvorki meira né minna en 36 milljónir punda, rúma 7 milljarða íslenskra króna. Heyrðust þá setningar eins og: „Hvað er Van Gaal að spá, er hann orðinn klikkaður? Kaupa nær óþekktan leikmann, einhvern gutta fyrir allan þennan pening.“

Mark gegn Liverpool

En Martial hefur heldur betur sýnt að það er mikið í hann spunnið og stuðningsmenn Manchester-liðsins halda ekki vatni yfir framgöngu hans inni á vellinum. Frakkinn ungi byrjaði feril sinn hjá United með því að skora á móti erkifjendunum í Liverpool og hann hefur síðan fylgt því eftir með því að skora tvö mörk gegn Southampton og í deildabikarleik á móti Ipswich. Þvílík byrjun hjá drengnum og menn sjá fyrir sér að ný stjarna sé að koma fram á sjónarsviðið á Old Trafford. „Bestu kaup sumarsins,“ segir Rio Ferdinand, fyrrverandi leikmaður og fyrirliði Manchester-liðsins.

14 ára gamall til Lyon

Martial er fæddur í Massy í Frakklandi 5. desember 1995. Á fyrstu árum ævi sinnar spilaði hann með franska liðinu CO Les Ulis en 14 ára gamall vakti hann áhuga Lyon og félagið fékk hann til liðs við sig. Á sínu öðru ári með liðinu skoraði hann 32 mörk í 21 leik með U17 ára liði félagsins og var í kjölfarið valinn í U17 ára landslið Frakka og lék með því í úrslitakeppni EM í Slóveníu 2012. Hann lék sinn fyrsta leik með aðalliði Lyon í desember 2012 þegar hann kom inná í leik í Evrópudeildinni gegn ísraelsku liði og hans fyrsta mark í frönsku 1. deildinni leit dagsins ljós í febrúar 2013 þegar hann skoraði á móti liði Ajaccio.

Seldur til Monaco

Í júní 2013 tilkynnti Monaco kaup á Martial og gerði við hann þriggja ára samning. Hann lék sinn fyrsta deildarleik með liðinu í nóvember það ár þegar hann leysti Radamel Falcao af hólmi. Sex dögum síðar setti hann fyrsta markið sitt fyrir Monaco. Martial meiddist á ökkla undir lok ársins og þau meiðsli háðu honum á fyrsta tímabilinu. Í byrjun árs 2014 var samningur hans framlengdur til júníloka 2018. Á sínu öðru tímabili með Monaco skoraði hann 9 mörk í 36 leikjum og eftir tímabilið var samningur hans aftur framlengdur, nú til ársins 2019.

Í byrjun ágúst á þessu ári skoraði Martial sitt fyrsta mark í Evrópukeppni, í 4:0 sigri á móti svissneska liðinu Young Boys en þremur vikum síðar skrifaði hann undir fjögurra ára samning við stórlið Manchester United. Van Gaal sagðist sjá Martial fyrir sér sem leikmann félagsins til framtíðar frekar en að nota hann þegar í stað. Það var svo 12. september sem franski táningurinn stimplaði sig inn í ensku úrvalsdeildina þegar hann skoraði þriðja mark United í 3:1 sigri á móti Liverpool á Old Trafford.

Byrjar betur en Ronaldo, Rooney og Nistelrooy

Martial hefur spilað með öllum yngri landsliðum Frakklands en þann 26. ágúst var hann valinn í franska A-landsliðið í fyrsta sinn og hlaut eldskírnina með því þann 4. september þegar hann kom inná fyrir Karim Benzema í 1:0 sigri á móti Portúgölum.

Margir hafa líkt töktum Martial við frönsku goðsögnina Thierry Henry en Martial býr yfir hraða og tækni sem Henry var þekktur fyrir og eins hafa menn séð margt líkt með þeim í afgreiðslu færanna.

Martial verður í eldlínunni á Old Trafford í dag þegar United fær botnlið Sunderland í heimsókn. Takist franska ungstirninu að skora í þeim leik skráir hann nafn sitt í sögubækur félagsins með því að verða fyrsti leikmaður liðsins til að skora í fyrstu þremur leikjum sínum í deildinni. Hann hefur þegar skákað stórum „kanónum“ sem spilað hafa í búningi Manchester United. Cristiano Ronaldo og Carlos Tévez skoruðu eitt mark í fyrstu fjórum leikjum sínum með United og þeir Wayne Rooney og Ruud van Nistelrooy skoruðu þrjú mörk. Robin van Persie skoraði hins vegar fjögur mörk í fyrstu fjórum leikjum sínum með liðinu.

Heldur sig á jörðinni

Louis van Gaal, stjóri United, óttast ekki að þessi frábæra byrjun með liðinu stígi Martial til höfuðs. „Ég hef verið mjög ánægður með hann en ég tel mikilvægt að hann haldi sig á jörðinni og ég veit að hann gerir það. Hann er ekki orðinn stórstjarna ennþá enda er hann ekki nema 19 ára gamall,“ segir Van Gaal.

„Fyrir fyrsta leik hans á móti Liverpool var fólk að spá í verðið á honum, hvort hann talaði ensku og hverjir eiginleikar hans væru. En hann lætur bara boltann tala,“ segir Thierry Henry sem hefur hrifist af landa sínum.

Anthony Martial
» Hann er 19 ára og verður tvítugur 5. desember.
» Martial er dýrasti leikmaður sögunnar sem er undir tvítugu. Manchester United greiddi Monaco 36 milljónir punda og sú upphæð getur hækkað talsvert, eftir því hvernig hann stendur sig.
» Martial spilaði tvo fyrstu A-landsleiki sína fyrir Frakka fyrr í þessum mánuði.