Föndur Börn eru með opinn huga og þeim finnst gaman að skapa eitthvað.
Föndur Börn eru með opinn huga og þeim finnst gaman að skapa eitthvað.
Blessuð börnin kunna flest afskaplega vel við að fá að fara á bókasafn og njóta þess sem þar er í boði, hvort sem það eru bækurnar eða eitthvað annað. Umhverfið er örvandi og alltaf eitthvað skemmtilegt að sjá.

Blessuð börnin kunna flest afskaplega vel við að fá að fara á bókasafn og njóta þess sem þar er í boði, hvort sem það eru bækurnar eða eitthvað annað. Umhverfið er örvandi og alltaf eitthvað skemmtilegt að sjá. Borgarbókasafnið býður upp á ýmsa viðburði allt árið um kring og í dag er margt skemmtilegt á ólíkum söfnum borgarinnar. Í dag kl. 14-16 í aðalsafni Borgarbókasafnsins í Tryggvagötu verður boðið upp á smiðju fyrir börn sem er kölluð „Skemmtilegir skógar, dagur lítilla málara.“ Það fá börnin meðal annars tækifæri til að feta í fótspor listmálarans Pekka Halonen og skapa sína eigin list með innblæstri frá skógunum. Fjölbreyttur efniviður verður í boði á staðnum. Dagskrá dagsins inniheldur leiðsögn við skapandi vinnu þar sem ímyndunaraflið fær að njóta sín. Sigurbjörg „Sibba“ Karlsdóttir verður einnig á staðnum og segir börnunum heillandi sögur um töfra og leyndardóma skóganna. Frásögnin verður bæði á íslensku og ensku eftir þörfum.

Börn eru beðin um að koma með tómar mjólkurfernur eða annað áþekkt sem notað verður til að byggja fuglahús. Allt annað efni fyrir smiðjuna verður í boði á staðnum. Smiðjan skemmtilegir skógar, er hluti af sýningunni Í íslensku skógunum sem stendur yfir á Reykjavíkurtorgi, sýningarsal í Grófinni frá 21-27. september. Sýningin og smiðjan eru opnar almenningi og ókeypis aðgangur.

Í bókasafninu í Sólheimum er Ljúfur laugardagur síðasta laugardag í mánuði kl. 11-12. Þá er boðið upp á föndur, spil eða annað skemmtilegt sem börn og fjölskyldur þeirra geta dundað sér við saman. Markmiðið er að búa til notalega umgjörð um sameiginlega stund þar sem sköpunargleðin ræður ríkjum. Í dag verður boðið upp á klippiljóð. Safnið býður upp á orðin og pappírinn en þátttakendur leggja fram sköpunarkraftinn og hugvitssemina. Klippiljóðin henta krökkum sem eru byrjuð að lesa, en pappír og litir verða fyrir yngri börn.

Í bókasafninu í Spönginni verður krakkabingó í dag kl. 14. Allir eru hvattir til að taka þátt í hinu sívinsæla bingói með fjölskyldunni eða góðum vinum. Skemmtilegir vinningar fyrir þá sem hafa heppnina með sér. Bingódagarnir eru sívinsælir og nokkrir slíkir á dagskrá í menningarhúsum Borgarbókasafnsins í haust. Fylgist með á vefsíðunni:

www.borgarbokasafn.is