Listafólkið Einar Jóhannesson, Anna Áslaug Ragnarsdóttir, Laufey Sigurðardóttir, Ingibjörg Guðjónsdóttir og Þórður Magnússon.
Listafólkið Einar Jóhannesson, Anna Áslaug Ragnarsdóttir, Laufey Sigurðardóttir, Ingibjörg Guðjónsdóttir og Þórður Magnússon.
„Það er afskaplega gaman að fá tækifæri til þess að takast á við þetta tónverk aftur og ekki síst á söguslóðum þess,“ segir Einar Jóhannesson klarínettuleikari um Gunnarshólma , tónverk Þórðar Magnússonar við kvæði Jónasar Hallgrímssonar,...

„Það er afskaplega gaman að fá tækifæri til þess að takast á við þetta tónverk aftur og ekki síst á söguslóðum þess,“ segir Einar Jóhannesson klarínettuleikari um Gunnarshólma , tónverk Þórðar Magnússonar við kvæði Jónasar Hallgrímssonar, sem flutt verður á tónleikum á Kvoslæk í Fljótshlíð í dag kl. 15. Flytjendur eru Ingibjörg Guðjónsdóttir sópran og Tríó Sírajón, sem auk Einars skipa þær Laufey Sigurðardóttir á fiðlu og Anna Áslaug Ragnarsdóttir á píanó.

„Við frumfluttum tónverkið á Listahátíð í Reykjavík í fyrra í Hannesarholti og þá stjórnaði ég verkinu frá púltinu, en að þessu sinni heldur tónskáldið um tónsprotann,“ segir Einar og tekur fram að það sýni stórhug hjá tónskáldinu að tónsetja kvæðabálkinn Gunnarshólma eftir Jónas Hallgrímsson. „Þetta er glæsilegt verk og mjög krefjandi, sérstaklega fyrir söngvarann,“ segir Einar um meginverk tónleikanna sem flutt verður eftir hlé. „Við leikum einnig nokkur af Jónasarlögum Atla Heimis Sveinssonar eftir hlé,“ segir Einar, en fyrir hlé hljóma verk eftir W.A. Mozart. „Það er eitthvað við heiðríkjuna hjá Jónasi að hann passar einstaklega vel með Mozart, svo við höfum heiðríkjuna hjá Mozart fyrir hlé og heiðríkju Jónasar eftir hlé,“ segir Einar, en fyrir hlé verða flutt Sónata í G-dúr fyrir fiðlu og píanó KV 301; Fantasía í d-moll KV 397 og Rondo í D-dúr KV 485 fyrir píanó og arían „Parto, parto“ úr óperunni La Clemenza di Tito fyrir sópran, klarínettu og píanó.

„Þetta er afar góður hópur, þannig að það geta allir spilað sóló líka. Það er því gaman að bjóða upp á nokkrar ólíkar hljóðfærasamsetningar áður en allir sameinast í flutningi á verki Þórðar.“

Menningarsetur á Kvoslæk

Sem fyrr segir fara tónleikarnir fram á Kvoslæk, sem er aðeins lengra en Hvolsvöllur, en þar reka hjónin Björn Bjarnason og Rut Ingólfsdóttir menningarsetur. „Þau eignuðust bóndabæ fyrir þónokkrum árum og hafa umbreytt honum í menningarsetur, þar sem tónleikasalurinn er í gömlu hlöðunni. Við hlökkum til að spila fyrir þau heiðurshjón og samsveitunga þeirra, enda hefur lengi staðið til að halda þarna tónleika.“ silja@mbl.is