Yfirburðir Esther Viktoría Ragnarsdóttir með skot að marki Vals, í yfirburðasigri Stjörnunnar í gær, en hún skoraði tvö mörk í leiknum.
Yfirburðir Esther Viktoría Ragnarsdóttir með skot að marki Vals, í yfirburðasigri Stjörnunnar í gær, en hún skoraði tvö mörk í leiknum. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Mýrinni Sindri Sverrisson sindris@mbl.is Það er auðvitað of mikið að hafa 14 lið saman í einni deild í handbolta kvenna hér á landi í vetur, en sú er raunin.

Í Mýrinni

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

Það er auðvitað of mikið að hafa 14 lið saman í einni deild í handbolta kvenna hér á landi í vetur, en sú er raunin. Því er viðbúið að deildin skiptist einhvern veginn upp í tvær eða þrjár deildir, því getumunurinn er gríðarlegur á milli bestu og slökustu liðanna. Getumunurinn er í raun strax gríðarlegur þegar horft er til Stjörnunnar, sem spáð er toppbaráttu, og Vals, sem spáð er 6. sæti, ef marka má leik liðanna í gærkvöld. Það var mér hreinlega erfitt að horfa upp á það sem Valskonur buðu upp á í Garðabænum í gær, þar sem Stjarnan vann níu marka sigur þrátt fyrir að gera óhóflega mörg mistök í leiknum.

Ég veit að Valsliðið er ekki það sama og fyrir tveimur árum. Nú er verið að móta nýtt lið með efnilegum leikmönnum sem njóta fulltingis nokkurra reynslubolta sem þekkja það vel að landa titlum. En þetta lið átti bara ekki séns gegn vörn Stjörnunnar, og virtist ekki hafa nokkurn áhuga á því. Til að eiga einhverja möguleika gegn toppliðum deildarinnar þarf Valur að eiga stórleik og allir leikmenn að vera grimmir og einbeittir frá fyrstu mínútu. Í staðinn var eins og þeir væru allir á deyfilyfjum. Liðið stólar allt of mikið á Kristínu Guðmundsdóttur, besta leikmann síðasta Íslandsmóts, en hún átti skelfilegan dag og skilaði boltanum ítrekað í faðm Florentinu Stanciu í marki Stjörnunnar. Það er þó ekki ástæða til að taka skotleyfið af Kristínu miðað við það sem aðrir leikmenn buðu upp á, þegar á annað borð tókst að koma skoti á markið. Valsliðið missti boltann óteljandi oft klaufalega frá sér.

Í raun var ekki mikið betra að sjá til sóknarleiks Stjörnunnar. Samt vann liðið níu marka sigur. Auðvitað var sóknin skárri en hjá Val, en mistökin voru mýmörg og klaufaleg. Helena Rut Örvarsdóttir og hin 18 ára gamla Stefanía Theodórsdóttir mynda þó forvitnilegt par á vinstri vængnum, og komust ágætlega frá sínu.

En það var vörn Stjörnunnar og frammistaða Florentinu sem fyrst og fremst skóp sigurinn. Florentina vann mjög vel með vörninni en sá einnig við vítaköstum og nokkrum dauðafærum. Hún varði alls 25 skot, eða 2/3 hluta þeirra skota sem hún fékk á sig í leiknum og það er náttúrulega alveg magnað, jafnvel þegar Florentina á í hlut. Stjarnan á mikið inni í sóknarleik sínum og hraðaupphlaupum og það gefur enn betri fyrirheit fyrir veturinn. Valskonur virðast hins vegar eiga ógnarmikið verk fyrir höndum ætli þær að geta veitt bestu liðum deildarinnar keppni í einhverjum leikjum í vetur.

Stjarnan – Valur 23:14

TM-höllin, úrvalsdeild kvenna, Olís-deildin, föstudag 25. september 2015.

Gangur leiksins : 3:0, 3:1, 5:3, 9:6, 12:7, 15:8 , 16:8, 16:10, 18:12, 21:12, 21:13, 23:14 .

Mörk Stjörnunnar : Stefanía Theodórsdóttir 7/2, Helena Rut Örvarsdóttir 4, Guðrún Erla Bjarnadóttir 3, Hanna G. Stefánsdóttir 3, Esther Viktoría Ragnarsdóttir 2, Þórhildur Gunnarsdóttir 2, Nataly Sæunn Valencia 1/1, Sólveig Lára Kjærnested 1.

Varin skot : Florentina Stanciu 25/2, Ástríður Þóra Viðarsdóttir Scheving 3.

Utan vallar : 2 mínútur

Mörk Vals : Íris Pétursdóttir Viborg 4, Kristín Guðmundsdóttir 3, Sigurlaug Rúnarsdóttir 3, Bryndís Elín Halldórsdóttir 2, Ragnhildur Hjartardóttir 1, Gerður Arinbjarnar 1.

Varin skot : Berglind Íris Hansdóttir 19/3.

Utan vallar : 2 mínútur

Dómarar : Ingvar Guðjónsson og Þorleifur Árni Björnsson

Áhorfendur : 134.