Jón Þ. Þór
Jón Þ. Þór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is Utangarðs? Ferðalag til fortíðar nefnist bók eftir Halldóru Kristinsdóttur og Sigríði Hjördísi Jörundsdóttur sem væntanleg er frá bókaútgáfunni Uglu fyrir jólin.

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

Utangarðs? Ferðalag til fortíðar nefnist bók eftir Halldóru Kristinsdóttur og Sigríði Hjördísi Jörundsdóttur sem væntanleg er frá bókaútgáfunni Uglu fyrir jólin. „Í bókinni er sagt frá utangarðsfólki og förufólki á Vesturlandi og Vestfjörðum frá síðari hluta 18. aldar og fram á fyrstu ár 20. aldar. Saga einstaklinganna er rakin og dregin fram skjöl og handrit sem tengjast þeim. Slóð utangarðsfólks leynist ótrúlega víða þegar betur er að gáð – og fjöldi þeirra kemur á óvart. Óhætt er að segja að þessi örlagaþrungna grasrótarsaga bregði nýju og óvæntu ljósi á Íslandssöguna,“ segir m.a. í kynningu frá bókaútgáfunni. Þar kemur fram að bókin sé ríkulega myndskreytt, þar á meðal með teikningum Halldórs Baldurssonar.

Alls sendir Ugla frá sér sex titla fyrir jólin, en áður hafa komið út níu bækur á árinu. Þeirra á meðal eru bókmenntaverkin 1984 eftir George Orwell og Ef að vetrarnóttu ferðalangur eftir Italo Calvino auk fræðibókarinnar Listamaður á söguslóðum eftir Vibeke Nørgaard Nielsen í þýðingu Sigurlínar Sveinbjarnardóttur með einstökum teikningum danska listmálarans Johannesar Nilsens af söguslóðum Íslendingasagna.

Tvær nýjar þýðingar

Meistarar skáksögunnar nefnist ný bók eftir Jón Þ. Þór. Þar segir höfundur sögu „helstu meistara skáksögunnar frá Steinitz til Fischers og Friðriks Ólafssonar. Hann rekur fjölbreytta og ævintýrilega ævi meistaranna, bregður upp lifandi mynd af skákferli þeirra og skýrir með fjölmörgum stöðumyndum eftirminnilegustu skákir þeirra,“ segir í kynningu.

Tvær nýjar þýðingar úr smiðju Jakobs F. Ásgeirssonar líta dagsins ljós hjá Uglu fyrir jól. Annars vegar er um að ræða sakamálasöguna Morðið í Austurlandahraðlestinni eftir Agöthu Christie og hins vegar barnabókina Þar sem villidýrin búa eftir Maurice Sendak. Loks má nefna að allar sjö Öddubækurnar eftir Jennu og Hreiðar verða senn endurprentaðar og gefnar út saman í kassa.