Bjarni Benediktsson
Bjarni Benediktsson
„Við höfum ávallt gætt að því þegar verkefni eru flutt til sveitarfélaga að því fylgi tekjustofnar.

„Við höfum ávallt gætt að því þegar verkefni eru flutt til sveitarfélaga að því fylgi tekjustofnar. Að því leytinu til ætti það ekki að eiga rætur sínar í tilflutningi verkefna að sveitarfélögin telji sig þurfa að styrkja tekjustofnana,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra um það sem kom fram á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna í vikunni að brýnt væri að auka tekjurnar og fá meiri hlutdeild í skattstofnum ríkisins.

Á fjármálaráðstefnunni voru kynntar ýmsar hugmyndir um tekjuöflun, m.a. að öll mannvirki yrðu háð fasteignamati og núverandi undanþágur frá fasteignaskatti yrðu afnumdar. Bjarni segist ætíð vera reiðubúinn til viðræðna um að fækka undanþágum og breikka skattstofna.

„Mér sýnist að það sem þrengir einkum að sveitarfélögunum núna séu þessar miklu launahækkanir sem samið hefur verið um. Fara þarf yfir hvernig hægt er að taka á því. Annars slær það mann ekkert sérstaklega vel ef allar hugmyndir eiga að ganga út á að ríkið gefi eftir af tekjum og þær færist til sveitarfélaganna án þess að ný verkefni komi til,“ segir Bjarni en ítrekar að fullt tilefni sé til að ræða hugmyndir um breikkun skattstofna.

Bjarni bendir jafnframt á að sveitarfélögin hafi notið góðs af ýmsum aðgerðum stjórnvalda á seinni árum. Nefnir hann bankaskattinn sem dæmi, sá skattur hafi skilað miklum tekjum til sveitarfélaganna. Sama megi segja um úttöku séreignarsparnaðar. Þá hafi skattar verið hækkaðir á undanförnum árum og sveitarfélögin fengið sína hlutdeild af því gegnum jöfnunarsjóðinn. Það sé því áhyggjuefni að þrátt fyrir þetta sé víða þröngt í búi hjá sveitarfélögunum.

Varðandi þær hugmyndir sveitarfélaganna að þau fái meiri tekjur af umferð og ferðaþjónustu segir Bjarni þau óbeint fá þátttöku í auknum umsvifum í ferðaþjónustu. Hins vegar er hann til í viðræður um endurskoðun opinberra gjalda í samgöngum. Gjaldtakan sé flókin og þurfi heildstæða skoðun. bjb@mbl.is