[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.is Það kom líklega engum á óvart að Fanndís Friðriksdóttir úr Breiðabliki var valin besti leikmaður í Pepsi-deild kvenna á nýafstaðinni leiktíð af leikmönnum deildarinnar en Fanndís átti frábært tímabil.

Fótbolti

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

Það kom líklega engum á óvart að Fanndís Friðriksdóttir úr Breiðabliki var valin besti leikmaður í Pepsi-deild kvenna á nýafstaðinni leiktíð af leikmönnum deildarinnar en Fanndís átti frábært tímabil. Hún var lykilmaður í Íslandsmeistaraliði Blika og varð markadrottning deildarinnar með 19 mörk í 18 leikjum. Fanndís tók á móti verðlaunum sínum í höfðustöðvum Ölgerðarinnar í gær en vissulega hefði maður kosið að hafa betri og stærri umgjörð þegar verðlaun til þeirra sem sköruðu framúr á tímabilinu voru veitt.

Gerði ráð fyrir þessu

„Jú, það má svo sannarlega orða þetta á þennan hátt,“ sagði Fanndís við Morgunblaðið þegar hún var spurð að því hvort þessi viðurkenning væri ekki jarðarberið ofan á ísinn hvað tímabilið varðaði. „Þessi viðurkenning kemur mér satt best að segja ekki á óvart. Ég var búin að gera ráð fyrir þessu enda átti ég gott tímabil og það mitt langbesta frá upphafi,“ sagði hin brosmilda Fanndís eftir að hafa tekið á móti Flugleiðahorninu eftirsótta.

Fanndís er 25 ára gömul og hefur spilað með Breiðabliki allan sinn feril ef undanskilið er eitt og hálft ár þar sem hún spilaði með norsku liðunum Kolbotn og Arna-Björnar frá 2013-14.

Búin að leggja hart að mér

Hver er lykillinn á bak við þetta frábæra tímabil hjá þér?

„Ég er búin að leggja mjög hart að mér og þá skiptir hugarfarið máli og hugarfar liðsfélaga líka. Ég breytti svo sem engu en maður er orðinn þroskaðri og gerir það kannski ómeðvitað hvað varðar minni hluti sem ég hefði aldrei hugsað út í áður. Ég var í litlu hlutverki þegar Breiðablik vann titilinn 2005. Ég fékk þá kitl í magann en það var meira gaman að vinna titilinn núna þar sem ég var í stærra hlutverki,“ sagði Fanndís, sem eins og áður segir endaði sem markahæsti leikmaður deildarinnar.

„Það kom mér mjög á óvart að enda sem markahæsti leikmaðurinn en það kom mér ekkert á óvart að við enduðum sem meistarar enda lögðum við upp með það markmið áður en tímabilið hófst. Þetta lítur vel út hjá okkur í Breiðabliki. Það stefnir í að við höldum flestum okkar leikmönnum og þá er fullt af yngri leikmönnum að koma upp hjá félaginu. Við verðum áfram í titilbaráttunni enda er Breiðablik félag sem á að vera þar á hverju ári.“

Einhverjir umboðskarlar hafa haft samband

Spurð hvort hún hafi sett atvinnumennskuna á hilluna segir Fanndís; „Ég bjóst við öðru þegar ég fór út til Noregs en ég er ekkert búin að útiloka það að fara aftur út. Það þarf hins vegar að vera meira spennandi heldur en síðast. Öll aðstaða í kringum Breiðablik er svo frábær og það er betra vera þar heldur en á þeim stað sem ég var á úti í Noregi. Ef eitthvert betra lið og með betri leikmönnum vill fá mig þá hlýt ég að græða á því að fara þangað og það er eitthvað sem ég myndi skoða. Það hafa einhverjir umboðskarlar haft samband en ég þarf að fara varlega því það er ekki öllum treystandi. Eins og staðan er í dag er ég ekkert á leiðinni út en ég skoða það auðvitað ef það býðst. Ég væri helst til í að fara til Svíþjóðar. Þar virðist vera heilsteyptasta deildin. Þá eru Bandaríkin líka spennandi,“ sagði Fanndís, sem hefur svo sannarlega fengið góðan stuðning frá foreldrum sínum sem báðir voru afburða íþróttamenn. Faðir hennar, Friðrik Friðriksson, var landsliðsmarkvörður í knattspyrnu og móðir hennar, Nanna Leifsdóttir, margfaldur Íslandsmeistari á skíðum og landsliðskona.

En hvað er leikmaður ársins að gera fleira heldur en að spila fótbolta?

„Ég er í skóla. Ég legg stund á ferðamálafræði í Háskóla Íslands og er þar á öðru ári. Ég hef ekki náð að sinna því alveg nógu vel síðustu vikur. Ég er ekki mikil námsmanneskja en ég reyni mitt besta. Þetta er gaman og leiðinlegt eins og allt í lífinu en eins og staðan er í dag er fótboltinn númer eitt og verður það eitthvað áfram.“

*Andrea Rán Sæfeld Hauksdóttir úr Breiðabliki var útnefnd efnilegasti leikmaður deildarinnar. Allt um viðurkenningarnar má finna á mbl.is/sport/fotbolti