ÍSAL Kjaradeilur standa enn yfir.
ÍSAL Kjaradeilur standa enn yfir. — Morgunblaðið/Ómar
Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.is Samningafundur hefur verið boðaður hjá ríkissáttasemjara á mánudag í kjaradeilu starfsmanna og vinnuveitenda í álveri Rio Tinto Alcan í Straumsvík (ÍSAL).

Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

Samningafundur hefur verið boðaður hjá ríkissáttasemjara á mánudag í kjaradeilu starfsmanna og vinnuveitenda í álveri Rio Tinto Alcan í Straumsvík (ÍSAL). Er það fyrsti samningafundurinn í deilunni síðan á föstudag í síðustu viku.

Kurr er komin í stéttarfélög starfsmanna álversins eftir bréf sem Samtök atvinnulífsins, fyrir hönd ÍSAL, sendu félögunum í vikunni. Þar er því haldið fram að atkvæðagreiðsla um yfirvinnubann í álverinu, sem hefur verið í gildi frá 1. ágúst sl., hafi verið ólögleg. Félögin hafa svarað þessu bréfi, með aðstoð lögfræðings ASÍ, Magnúsar M. Norðdahl, en þar kemur fram að yfirvinnubanninu hafi verið aflýst. Jafnframt er lýst óánægju með framkomu SA og ÍSAL og vitnað til fundar í húsakynnum ríkissáttasemjara 11. ágúst sl., þegar boðuðu allsherjarverkfalli var aflýst. Þar hafi engar athugasemdir verið gerðar af hálfu SA og ÍSAL við boðun og framkvæmd yfirvinnubannsins. Síðan þá hafi undanþágubeiðnir ÍSAL frá yfirvinnubanni verið settar fram og afgreiddar athugasemdalaust.

„Félögin mótmæla þeim lagarökum sem fram koma í erindi SA varðandi gildi atkvæðagreiðslu um boðun yfirvinnubanns og allsherjarverkfalls í einu lagi,“ segir m.a. í bréfi lögfræðings ASÍ.

Gylfi Ingvarsson, talsmaður samninganefndar verkalýðsfélaganna, er ósáttur við framkomu SA og ÍSAL. Engar athugasemdir hafi verið gerðar við yfirvinnubannið á fyrrnefndum fundi í ágúst með sáttasemjara.

Trúnaðarbrestur

„Mér finnst það alvarlegt þegar menn standa ekki við heiðursmannasamkomulag og gefin loforð. Hér hefur orðið trúnaðarbrestur og þetta mun herða deiluna,“ segir Gylfi og útilokar ekki að félögin íhugi einhverjar aðgerðir ef samningafundur á mánudag skili engu. Félögin sem um ræðir eru Félag iðn- og tæknigreina, Félag rafeindavirkja, Félag íslenskra rafvirkja, Félag vélstjóra og málmtæknimanna, MATVÍS, VR og Hlíf.