Baldur Loftsson fæddist 5. október 1932 á Sandlæk, Gnúpverjahreppi. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands 18. september 2015.

Foreldrar hans voru hjónin á Sandlæk, þau Elín Guðjónsdóttir, húsfreyja frá Unnarholti í Hrunamannahreppi, f. 14.9. 1901, d. 2.2. 1991, og Loftur Loftsson, bóndi frá Stóra-Kollabæ í Fljótshlíð, f. 8.10. 1896, d. 14.3. 1978. Systkini Baldurs eru: Erlingur, f. 22.6. 1934, Loftur, f. 5.4. 1937, d. 18.6. 1997, Sigríður, f. 11.4. 1940, d. 13.2. 1992, og Elínborg, f. 26.8. 1947.

Hinn 30. janúar 1956 giftist Baldur Elínu Jónsdóttur frá Hrepphólum (þau skildu), börn þeirra eru: 1. Jón, f. 23.10. 1955, kvæntur Ingibjörgu Sigríði Árnadóttur og eiga þau tvö börn og þrjú barnabörn, fyrir á Jón einn son. 2. María, f. 4.4. 1957, gift Sævari Hjálmarssyni og eiga þau tvö börn og þrjú barnabörn. 3. Elín Elísabet, f. 19.12. 1958, gift Jóni Marinó Guðbrandssyni og eiga þau þrjú börn og sex barnabörn, 4. Bryndís, f. 22.8. 1960, gift Eyþóri Brynjólfssyni og eiga þau þrjú börn og þrjú barnabörn, 5. Halla, f. 12.11. 1966, gift Ómari Þór Baldurssyni og eiga þau þrjú börn og tvö barnabörn.

Hinn 21. júlí 1978 kvæntist Baldur, Öldu Sigurrós Joensen frá Eskifirði, barn þeirra er: Erna Björk, f. 20.8. 1979, og á hún eitt barn. Fyrir á Alda fjögur börn. 1. Jóhann Unnar, f. 14.9. 1956, kvæntur Hlíf Sigurðardóttur og eiga þau þrjú börn og fjögur barnabörn. 2. Sigurður Hans, f. 4.1. 1959, kvæntur Jónínu K. Björnsdóttur og eiga þau fjögur börn og 10 barnabörn. 3. Sigríður, f. 29.6. 1962, gift Þorkeli Þorkelssyni og eiga þau tvö börn og fjögur barnabörn. 4. Gunnar Kr., kvæntur Möggu S. Brynjólfsdóttur og eiga þau þrjú börn og tvö barnabörn.

Baldur lauk landsprófi frá Héraðsskólanum á Laugarvatni 1951 og tók meirapróf 1957. Stundaði orgelnám hjá Kjartani Jóhannessyni í nokkur ár. Reisti nýbýlið Breiðás í landi Hrepphóla árið 1957 og bjó þar til 1976 en flutti þá til Þorlákshafnar og reisti hús þar í Básahrauni 6. Baldur stundaði lengst af bifreiðaakstur hjá Mjólkurbúi Flóamanna, Mjölni og BM Vallá. Var alla tíð mikill tónlistarmaður. Spilaði á harmonikku með Harmonikkufélagi Selfoss í mörg ár ásamt að vera virkur kórfélagi í Söngfélagi Þorlákshafnar og kirkjukór Þorlákshafnarkirkju. Sat einnig um árabil í stjórnum og nefndum ýmissa félaga.

Útför Baldurs fer fram frá Þorlákskirkju í dag, 26. september 2015, og hefst athöfnin kl. 14.

Tengdafaðir minn hefur lagt af stað í sitt síðasta ferðalag, síðasti tónninn á harmonikkuna hefur verið sleginn. Baldur Loftsson hafði gaman af því að ferðast og var nikkan ætíð með í ferðum, en hann spilaði á það hljóðfæri í rúm sextíu ár. Ég kynntist Baldri árið 1977 þegar við Bryndís dóttir hans byrjuðum að draga okkur saman, hann tók mér vel frá okkar fyrstu kynnum og virkaði hann á mig ætíð sem rólegur og yfirvegaður maður. Ég tók upp á því á gamalsaldri að læra á harmonikku, kannski hafði Baldur smitað mig með sínum fallega harmonikkuleik. Baldur lánaði mér gömlu nikkuna sína fyrsta veturinn sem ég lærði. Hann fylgdist með því sem ég var að læra, vildi sjá nóturnar mínar og kom stundum með athugasemdir en oftast góð ráð. Þjórsárdalurinn var sameiginlegt áhugamál okkar, sögu Þjórsárdals þekkti Baldur vel. Við skoðuðum saman nokkur bæjarstæði en merkilegast þótti mér á ferðum okkar þegar Baldur sýndi mér hvar Gaukssteinn í Gaukshöfðanum stóð. Steinn þessi hvarf um 1960, en Baldur mundi vel eftir honum og lýsti honum vel. Gaukssteinn var steinn sem Gaukur Trandilsson stökk upp á og barðist við menn Ásgríms-Elliðagrímssonar. Við Bryndís byggðum okku hús í Árneshverfinu árið 2006, og kom Baldur oft við hjá okkur til að fylgjast með framkvæmdum þá var hann í vikurkeyrslu. Síðustu árin hringdi Baldur reglulega til okkar hjóna og var bara að fylgjast með hvernig við fjölskyldan hefðum það og fá fréttir úr gömlu sveitinni sinni. Baldri þótti ekki ganga nógu vel að klára húsasmíðina og kom hann til okkar síðasta haust og setti hornspýtur á húsið ásamt dóttur sinni. Talaði hann um það í vor að nú ætti bara eftir að setja þakkantinn á húsið og vildi endilega fara að byrja á því, en heilsan gaf sig og Baldur lést 18. september sl. Starfsfólki Sjúkrahúss Suðurlands sendi ég þakklæti fyrir góða umönnun í veikindum Baldurs. Elsku Alda, innilegar samúðarkveðjur til þín, þinn missir er mikill. Börnum Baldurs, börnum Öldu og öðrum ættingjum sendi ég mínar samúðarkveðjur.

Eyþór Brynjólfsson.

Elsku afi.

Orð eru ósköp fátækleg á svona stundu. Ég á rosalega margar góðar minningar með þér og ég er afar þakklát fyrir að hafa fengið það hlutskipti að vera barnabarn þitt. Sú hugsun kom upp í koll minn að ég hefði unnið í afalottóinu. Ég hef alltaf verið stolt af því að vera ein af afleggjurum þínum, því þú varst svo flottur karl, hávaxinn og reistur, spilaðir á harmonikku og varst góður við alla í kringum þig. Sérstaklega þykir mér vænt um hvað þér þótti vænt um fólkið í kringum þig og langafabörnin þín. Þú lést þig varða hvað Karítas Líf og Bergdís Heba voru að gera og það segir svo mikið um þinn karakter. Eins og komið hefur fram eru minningarnar margar en sérstaklega er mér minnisstætt í fyrrasumar þegar við Róbert vorum að keyra inn Eyjafjörðinn og rákumst á þig, Öldu og Ernu á förnum vegi. Hafðir þú þá verið að skemmta langt fram eftir nóttu og treystir þér ekki á þessum tímapunkti að keyra. Svona varstu, hraustur og flottur. Ég er einnig þakklát fyrir að þú skulir hafa spilað undir í skírn Bergdísar Hebu um páskana, það eiga ekki allir svona flottan langafa eins og stelpurnar mínar. En lífið er ekki alltaf dans á rósum og nú ertu kominn í sumarlandið, of snemma að mínu mati. Því ég er handviss um að ef þú hefðir ekki fengið þennan sjúkdóm þá hefðir þú orðið 100 ára að minnsta kosti. En minningin lifir og ég er svo þakklát fyrir að hafa geta eytt með þér tíma á sjúkrahúsinu í sumar, sem og öðrum stundum fram að því. Ég vona svo að þú hafir það gott og að við sjáumst seinna. Þín verður saknað hér en góðar minningar munu varðveitast um ókomna tíð. Þín,

Anna Björk.

Það er með djúpri virðingu og þökk sem við í Söngfélagi Þorlákshafnar kveðjum góðan félaga okkar, Baldur Loftsson, í hinsta sinn.

Baldur söng með Söngfélaginu í áratugi, svo lengi sem heilsa og kraftar leyfðu. Ekki hafði hann aðeins hlýja og fallega bassarödd, heldur var hann líka einstaklega músíkalskur, hafði næmt tóneyra og djúpan skilning á túlkun tónlistar og texta. Svo var hann ekki síður mikilvægur hlekkur í hinni félagslegu hlið kórstarfsins. Hann sat í stjórn Söngfélagsins til margra ára, var ævinlega með þegar kórinn gerði sér glaðan dag eða brá undir sig betri fætinum og fór í ferðalög, innanlands sem utan.

Og aldrei var harmonikkan langt undan. Hvar sem við komum saman var Baldur tilbúinn til að spila undir fjöldasöng, oftast svo lengi sem þau allra hörðustu stóðu enn uppi.

Sjaldan hygg ég að hann, eða við félagar hans, höfum notið þess betur en á hótelbarnum okkar í Toscana í ógleymanlegri Ítalíuför árið 2002. Þá léku þeir fyrir gesti og gangandi nokkur kvöld í röð; Baldur á nikkuna, Hemmi á gítar og Hilmar Örn á hljómborð. Þar fengu að hljóma íslenskar ballöður og slagarar í bland við vandaðri tónlist og að sjálfsögðu var hljómsveitin nefnd „The Baldidos“ í höfuðið á aldursforsetanum og hljómsveitarstjóranum.

Það var líka ógleymanlegt í þessari ferð og reyndar ætíð, hve snortinn Baldur var yfir þeirri hrifningu sem lögin hans Lofts bróður hans nutu meðal söngfélaga og áheyrenda. Víst er, að hér eftir munum við syngja Húmljóð og Ljósar nætur af enn meiri tilfinningu, gleði og væntumþykju og minnast þannig þeirra bræðra, Lofts tónskálds og Baldurs félaga okkar og vinar.

Við lútum höfði á kveðjustund og þökkum Baldri fyrir samveruna og samsönginn. Þökkum fyrir tryggðina við Söngfélagið til hinstu stundar, allar skemmtilegu samverustundirnar í kirkjunni, á æfingum, tónleikum, á ferðalögum og öðrum gleðistundum.

Öldu konu hans þökkum við einnig samveruna í Söngfélaginu og vottum henni og fjölskyldunni okkar dýpstu samúð. Blessuð sé minning Baldurs Loftssonar.

Fyrir hönd félaga í Söngfélagi Þorlákshafnar,

Sigþrúður Harðardóttir.