Síðasta gáta var sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson: Við bakstur mælieining er. Oss hann fyrir gjósti ver. Nefnist klerkur norðanlands. Notalegt er tárið hans. Harpa á Hjarðarfelli svarar: Bolli mælieining er og í bolla skýli mér.

Síðasta gáta var sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:

Við bakstur mælieining er.

Oss hann fyrir gjósti ver.

Nefnist klerkur norðanlands.

Notalegt er tárið hans.

Harpa á Hjarðarfelli svarar:

Bolli mælieining er

og í bolla skýli mér.

Bolli kunnur klerkur hér.

Kaffibolli yljar þér.

Elvar Einarsson, Williamsburg, Virginíu, á þessa lausn:

Í bakstri mælir bollinn vel.

Í bolla skjól ég ágætt tel.

Séra Bolli sálma tónar,

súp' úr bolla fínni rónar.

Helgi Seljan leysir gátuna þannig:

Bolla af hveiti er bezt að hafa,

í bolla grónum ég skjólið fann.

Séra Bolli er sæll án vafa,

„soldið“ kaffitár hressir mann.

Helgi R. Einarsson svarar:

Ég klóraði mér í kolli,

hvað sem að því nú olli,

hætti svo dundi og drolli,

á daginn kom þá bolli.

Sjálfur leysir Guðmundur gátuna þannig:

Bolli af sykri, bolli af hveiti.

Bolli oss fyrir gusti ver.

Bolli klerks er kunnugt heiti.

Kaffi úr bolla drukkið er.

Og lætur limru fylgja:

Þeir telja, að Bolli bakari

sé betri maður og spakari

en hárskerinn Geir,

en hitt vita þeir,

að hárskerinn Geir er rakari.

Og loks er ný gáta eftir Guðmund:

Afrek vinnur öðrum fremur.

Aðeins lítill skammtur víns.

Oft í ljós á lofti kemur.

Ljós í enni Blesa þíns.

Svör þurfa að berast eigi síðar en á miðvikudagskvöld.

Mér finnst hlýða að ljúka Vísnahorni með stöku sem Jóhann frá Flögu kenndi mér á sokkabandsárum mínum á Laugaveginum:

Kaffibolla beindu mér

blíð og holl gulls eikin

því að hrollur í mér er

eftir skollaleikinn.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is