Hvalfjarðarsveit Hækkaði gjöld á húsnæði sem leigt var ferðamönnum.
Hvalfjarðarsveit Hækkaði gjöld á húsnæði sem leigt var ferðamönnum. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Starfsmenn Hvalfjarðarsveitar skoðuðu heimasíður þar sem sumarhús og íbúðir voru boðnar ferðamönnum til leigu. Í ljós kom að tugir sumarhúsa og íbúða í sveitarfélaginu stóðu ferðamönnum til boða.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Starfsmenn Hvalfjarðarsveitar skoðuðu heimasíður þar sem sumarhús og íbúðir voru boðnar ferðamönnum til leigu. Í ljós kom að tugir sumarhúsa og íbúða í sveitarfélaginu stóðu ferðamönnum til boða.

Sveitarfélagið ákvað að innheimta hærri fasteignagjöld af fasteignum sem leigðar voru ferðamönnum. Sú ákvörðun skilaði því að skatttekjur Hvalfjarðarsveitar jukust um nærri 2,5 milljónir á ári. Skúli Þórðarson, sveitarstjóri, greindi frá þessu á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga í gær.

Snýst um réttlæti og sanngirni

Íbúðarhúsnæði og sumarbústaðir falla undir A-hluta fasteignaskatts og er álagningin í Hvalfjarðarsveit 0,44% af fasteignamati. Mannvirki sem nýtt eru fyrir ferðaþjónustu falla undir C-hluta og er álagningin á eignir í þeim flokki 1,65% af fasteignamati. Um 460 sumarhús eru í sveitarfélaginu. Stjórnendur Hvalfjarðarsveitar komust að því að tugir sumarhúsa og eins íbúða í sveitarfélaginu stóðu ferðamönnum til boða.

Athugunin leiddi til þess að sveitarfélagið hækkaði álagningarhlutfallið á tíu fasteignir um áramótin 2014/2015 úr A í C-hluta. Farið var í frekari aðgerðir og fengu eigendur 19 sumarhúsa og íbúða til viðbótar bréf þar sem þeim var boðað að álagningu fasteignagjalda á tilteknar fasteignir þeirra yrði breytt frá 15. ágúst 2015. Náði hækkunin til tveggja síðustu gjalddaga ársins. Eigendurnir höfðu andmælarétt og kom í ljós að álitaefni voru mörg. Fallið var frá hækkun fasteignagjalda í nokkrum tilfellum.

Skúli sagði í ræðu sinni að málið snerist ekki um tekjurnar sem slíkar heldur um réttlæti og sanngirni gagnvart öðrum í ferðaþjónustu. Hann sagði í samtali við Morgunblaðið að í sveitarfélaginu væri t.d. rekið hótel sem opið er allt árið. Af því eru borguð fasteignagjöld upp á 1,65%, sama hvernig nýtingin er eða hvernig árar í ferðaþjónustunni.

Skúli kallaði eftir því að regluverk um útleigu og skattlagningu sumarhúsa verði endurmetið og einfaldað. Skýrar heimildir vanti í lög um tímabundna útleigu. Sumir leigja sumarhús sín út í nokkra daga, vikur eða mánuði en aðrir árið um kring.

Þá hvatti Skúli stjórnendur annarra sveitarfélaga til að kanna þetta hjá sér, enda séu miklir hagsmunir í húfi fyrir sveitarsjóðina. Aðalatriðið sé þó að allir sitji við sama borð og greiði þá skatta sem þeim ber.