Reynir Arngrímsson
Reynir Arngrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Læknaráð Landspítalans telur það felast í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar að spítalinn geti ekki staðið undir óbreyttri þjónustu og mætt nýlegum og væntanlegum launahækkunum heilbrigðisstétta.

Læknaráð Landspítalans telur það felast í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar að spítalinn geti ekki staðið undir óbreyttri þjónustu og mætt nýlegum og væntanlegum launahækkunum heilbrigðisstétta. Reynir Arngrímsson, formaður ráðsins, segir ráðið líta málið alvarlegum augum. Verði spítalanum ekki veitt aukið fé hljóti hækkanirnar að ganga á rekstrarfé spítalans. „Spurningin er þá hvort við minnkum þjónustuna til þess að mæta þessum mismun. Það eru umtalsverðar fjárhæðir sem vantar og enn á eftir að semja við stóra hópa innan spítalans eins og sjúkraliða og annað starfsfólk.“

Í ályktun ráðsins er vakin athygli á því að framlög til viðhalds húsakosts spítalans séu þau sömu að krónutölu milli ára en töluvert þurfi að bætast við þau framlög svo ástand bygginga geti talist viðunandi.

1,3 milljarðar til höfuðs biðlista

Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, sagðist ekki geta lagt mat á fullyrðingar Læknaráðs um launakostnað án þess að nánari útreikningar lægju fyrir en hans áhersla við fjárlagagerð hefði verið á að bæta stöðu heilsugæslu og heimahjúkrunar á landinu. Eflingu þeirra væri m.a. ætlað að draga úr álagi á spítalann.

Kristján sagði fleira mundu koma til. „Ég hef fengið vilyrði fyrir því í ríkisstjórn að unnið verði á þeim biðlistum sem eru í heilbrigðiskerfinu með fjárveitingu upp á 1,3 milljarða króna. Þær aðgerðir munu auka þjónustu við sjúklinga í landinu og létta álagi á heilbrigðisstofnunum, þar á meðal Landspítalanum.“

Kristján sagðist gjarnan vilja hafa svigrúm til þess að gera átak í viðhaldi á húsakosti spítalans og hann hefði skilning á þeim sjónarmiðum Læknaráðs en slíkt væri ekki mögulegt að svo stöddu. bso@mbl.is