Er hakkið orðið steikt þegar það er brúnt?“ spurði betri helmingur Víkverja nýverið símleiðis, þegar sá síðarnefndi var á kvöldvakt og gat því ekki af augljósum ástæðum séð um kvöldmatinn.

Er hakkið orðið steikt þegar það er brúnt?“ spurði betri helmingur Víkverja nýverið símleiðis, þegar sá síðarnefndi var á kvöldvakt og gat því ekki af augljósum ástæðum séð um kvöldmatinn. Það skal tekið fram strax að sá sem bar upp spurninguna er kominn hátt á fertugsaldur.

Þetta litla símtal sýnir verkaskiptinguna á heimilinu. Víkverji sér um eldamennskuna í svona 99% tilfella. Víkverji hefur meiri áhuga á matargerð en sambýlingurinn. Það afsakar þó ekki að geta ekki steikt hakk hjálparlaust eins og þetta símtal sem vitnað er til hér að ofan sýnir glögglega.

Það er svo gaman þegar þú bítur á öngulinn og spriklar af öllu afli.“ Þetta hefur maðurinn sem Víkverji býr með sagt margsinnis. Oftast kemur næsta setning á eftir í gamansömum tón: „Þú ert svo skapmikil“.

Kannski var þetta símtal eitt af þeim sem eiga að skaprauna Víkverja. Svarið sem Víkverji kom með var eitthvað á þessa leið: „Ha? Þú hlýtur að vera að grínast? Þú kannt að steikja hakk er það ekki? hundgamall maðurinn?“

Tónninn sem fylgdi þessum spurningum ætlar Víkverji að láta lesendum eftir að geta hvernig hafi verið.

Víkverji veit í hjarta sínu að sannleikurinn er sá að umræddur maður kunni ekki að steikja hakk fyrr en hann reyndi það fyrir alvöru. Það eru nefnilega þrír í heimili og einn klækjarefur til situr við stjórnvölinn. Það er lítið leikskólabarn sem brosir undurblítt til pabba síns. Það bað um hakk í matinn í staðinn fyrir enn eina eggjakökuna sem faðirinn reiðir alltaf fram á kvöldvöktum móðurinnar. Hver getur neitað því? Enginn og því lét heimilisfaðirinn hendur standa fram úr ermum. Spurning um að stinga að barninu að biðja föðurinn um flóknari rétti í framtíðinni.