Gleði Heimilisfólkið klæddi sig upp í tilefni dagsins og sumir settu upp hatta, aðrir komu í lopapeysum.
Gleði Heimilisfólkið klæddi sig upp í tilefni dagsins og sumir settu upp hatta, aðrir komu í lopapeysum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Harmonikkuspil ómaði á réttarballinu sem haldið var á hjúkrunarheimilinu Mörkinni í vikunni og heimilisfólkið þar á bæ skemmti sér konunglega.

Harmonikkuspil ómaði á réttarballinu sem haldið var á hjúkrunarheimilinu Mörkinni í vikunni og heimilisfólkið þar á bæ skemmti sér konunglega. Forstjórinn Gísli Páll gerði sér lítið fyrir og kom á fjórhjólinu sínu akandi inn í salinn og sagði frá vikulangri fjallferð sinni á vélfáknum um Skaftártunguafrétt. Hann hefur verið smali á þeim slóðum undanfarin tíu ár og veit fátt skemmtilegra.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Valdi kokkur hér í Mörkinni ber ábyrgð á því að ég er með þessa smalakynningu hér, hann stakk upp á því að krydda réttarballið með þessu innleggi, enda gaman fyrir heimilisfólkið að sjá og heyra af smalamennsku þar sem nútíma vélfákar eru notaðir. Ég geri ráð fyrir að margt af því fólki sem hér býr hafi komið nálægt smalamennsku í sinni bernsku, en þau þekkja eflaust ekki smalamennsku á fjórhjóli. Það er virkilega gaman að leyfa þeim að sjá gripinn og segja þeim frá reynslu minni,“ segir Gísli Páll Pálsson, forstjóri hjúkrunarheimilisins í Mörkinni, sem kom askvaðandi á réttarballið og hélt erindi um smalamennsku á fjórhjóli og varpaði fjölmörgum myndum upp á vegg frá nýliðinni ævintýraferð. Hann stillti upp útbúnaði smalans, hjólinu og klæðunum þar sem m.a. voru tvær lopapeysur, önnur prjónuð af móður hans en hin af eiginkonunni. Mörg pör af vettlingum voru með í för, enda þarf að eiga þurra til skiptanna ef rignir og nóg var af hlífðarfatnaði að ógleymdum ullarnærklæðum. „Þó að þetta sé ekki vaðmál eins og í gamla daga, þá kemur ullin sér ævinlega vel á fjalli,“ segir Gísli Páll sem er með starfsheitin forstjóri og smali skráð við nafn sitt í símaskránni.

Dásamlega skemmtilegt

„Ég er hreinræktað borgarbarn, alinn upp á mölinni og fékk ekki að vera í sveit þegar ég var strákur. En ég var svo heppinn að kynnast vini mínum Inga bónda á Snæbýli fyrir tveimur áratugum og það var í gegnum hann sem ég fékk að fara fyrst á fjall á Skaftártunguafrétt fyrir tíu árum og ég hef gert það árlega síðan. Frá því Ingi flutti til Raufarhafnar fyrir þremur árum hef ég verið hjá Sigfúsi og Lilju fjárbændum á Borgarfelli, en ég fer núna á fjall fyrir Hrífunes,“ segir Gísli Páll og bætir við að fjallferðin taki átta daga, hann fari að heiman á fimmtudagskvöldi og komi til byggða á föstudagskvöldi viku síðar. Réttað var síðastliðinn laugardag í Skaftártungurétt og smalarnir komu með um fjögur þúsund fjár af fjalli.

„Þetta er dásamlega skemmtilegt, það eina sem ég veit skemmtilegra er að fara á hreindýra- og fuglaveiðar, en ég kynntist einmitt Inga bónda þegar ég fór að skjóta gæs hjá honum á sínum tíma.“

Kjötsúpa á Sveinstindi

Eins og fyrr segir er enginn á hestum af þeim tuttugu fjallmönnum sem sjá um smalamennskuna í þennan vikutíma.

„Fimm konur voru í hópi fjallmanna þetta haustið og tólf af okkur smölunum voru á fjórhjóli, sex eða sjö voru gangandi og þrír fóru um á bílum. Við förum yfir stórt svæði á þeim átta dögum sem við erum á fjalli, við förum í Tungnaárbotna sem eru austan megin við Tungnaá og sunnan við Vatnajökul og við smölum það svæði upp að rótum jökulsins. Síðan smölum við Fögrufjöllin daginn eftir, Faxasund daginn þar á eftir, Skælinga á mánudegi, milli syðri og nyrðri Ófæru á þriðjudegi, Ófærudal á miðvikudegi, utan í fjöllunum á fimmtudegi og heim á föstudegi. Við gistum í tvær nætur í kofa við Sveinstind og þar er alltaf kjötsúpa í kvöldmat og stundum líka í morgunmat. Þaðan fórum við í Hólaskjól og gistum þar. Þetta er mikil törn,“ segir Gísli Páll og bætir við að þetta sé frábær félagsskapur og hann hafi kynnst mörgu skemmtilegu fólki í gegnum smalastarfið.

Velti hjólinu í fyrstu ferð

Í þau tíu skipti sem Gísli Páll hefur smalað Skaftártunguafrétt hefur hann öðlast reynslu og lært bæði á landslagið, kindurnar og vélfákinn.

„Ég velti hjólinu í fyrstu smalamennskunni, en maður sjóast með árunum og það gengur á ýmsu, þetta gengur misvel. En smalamennskan gekk rosalega vel þetta árið og það viðraði vel á okkur, þetta var með allra besta móti. En fjallferðinni og réttunum var frestað um viku þetta árið vegna kulda í vor og lakrar sprettu á afrétti. Sem betur fer var frestað, því veðrið hafði ekki verið gott í vikunni áður og það smalast ekki eins vel í slæmu veðri, fyrir nú utan hvað það er meira gaman að vera í góðu veðri í heila viku á fjalli.“