Hópflug Bjarni er hér fremstur á flugi með félögum sínum á Harvard-vélum, sem notaðar voru í seinni heimsstyrjöldinni.
Hópflug Bjarni er hér fremstur á flugi með félögum sínum á Harvard-vélum, sem notaðar voru í seinni heimsstyrjöldinni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Þetta var langur dagur en afar ánægjulegur,“ segir Bjarni Tryggvason geimfari, sem hélt upp á 70 ára afmæli sitt á heimaslóðum í Kanada um síðustu helgi með því að fljúga listflug á sex mismunandi flugvélum, allt frá litlum eins hreyfils...

„Þetta var langur dagur en afar ánægjulegur,“ segir Bjarni Tryggvason geimfari, sem hélt upp á 70 ára afmæli sitt á heimaslóðum í Kanada um síðustu helgi með því að fljúga listflug á sex mismunandi flugvélum, allt frá litlum eins hreyfils vélum upp í gamla herþotu. Bjarni segir flugið hafa heppnast fullkomlega, enda viðraði vel til listflugs þennan dag.

Eins og kom fram í afmælisviðtali við Bjarna í Morgunblaðinu sl. mánudag lét hann gamlan draum rætast með þessu listflugi á einum og sama deginum. Með aðstoð góðra vina úr flugheiminum fékk hann lánaðar vélar í flugið. Bjarni sendi Morgunblaðinu myndir frá þessum degi, sem fylgja hér á síðunni, en hann er margreyndur flugmaður og starfar í dag sem flugkennari eftir að hann fór á eftirlaun hjá kanadísku geimferðastofnuninni fyrir nokkrum árum.

Vélarnar sem Bjarni flaug voru af gerðinni Bucker Jungman, Edge 540, Pitts Special, Decathalon, Harvard og L-39. Sú síðasttalda er gömul herþota, framleidd í Tékkóslóvakíu á áttunda áratugnum, og er í eigu æfingaflugskóla sem Bjarni starfar hjá. Að hans sögn eru þessar þotur víða notaðar í dag til að æfa orrustuflugmenn.

Flestar minni vélarnar sem Bjarni flaug eru endurbættar eða smíðaðar eftir frumgerðum. Elsta frumgerðin er af gerðinni Bucker Jungman en þær vélar voru fyrst smíðaðar í kringum 1930. Eina vélina, af gerðinni Pitts, áttu Bjarni og sonur hans, Michael, um nokkurra ára skeið eða þar til þeir seldu hana í fyrra. Afmælisbarnið fékk hana lánaða í tilefni tímamótanna. Michael og Lauren, systir hans, fylgdust með listflugi föður síns þennan dag.

Næst á dagskránni hjá Bjarna, í tilefni 70 áranna, er að hlaupa hálft maraþon 11. október nk. í borginni Victoria. Geimfarinn er því enn á ferð og flugi. bjb@mbl.is