Verðlaun Dögg Mósesdóttir tók við Bechdel-stimplinum fyrir WIFT.
Verðlaun Dögg Mósesdóttir tók við Bechdel-stimplinum fyrir WIFT.
Bíó Paradís er fyrsta kvikmyndahúsið og fyrsti dreifingaraðili kvikmynda á Íslandi sem tekið hefur upp merkingar A-merktra kvikmynda en það þýðir að allar kvikmyndir sem bíóhúsið sýnir framvegis verða Bechdel-prófaðar.

Bíó Paradís er fyrsta kvikmyndahúsið og fyrsti dreifingaraðili kvikmynda á Íslandi sem tekið hefur upp merkingar A-merktra kvikmynda en það þýðir að allar kvikmyndir sem bíóhúsið sýnir framvegis verða Bechdel-prófaðar. Bechdel-prófið segir til um birtingarmynd kvenna í kvikmyndum og til að standast það þarf kvikmynd að uppfylla eftirfarandi þrjú skilyrði: í henni þurfa að vera a.m.k. tvær nafngreindar konur, þær þurfa að tala saman og þá um eitthvað annað en karlmenn.

WIFT á Íslandi, þ.e. Samtök kvenna í sjónvarpi og kvikmyndum, hlutu í vikunni sérstakan verðlaunagrip af þessu tilefni, Bechdel-stimpilinn úr eikarvið, þar sem samtökin hafa lagt sín lóð á vogarskálarnar til að jafna rétt kvenna í kvikmyndamenningu, að því er fram kemur í tilkynningu frá Bíó Paradís. Dögg Mósesdóttir tók við verðlaununum fyrir hönd WIFT á Íslandi.

Í tilefni af 30 ára afmæli Bechdel-prófsins var sænska kvikmyndin Nånting måste gå sönder sýnd í Bíó Paradís um síðustu helgi en hún fjallar um ást

Sebastians/Ellie sem upplifir sig sem trans-manneskju og Andreas sem er afar rólyndur. Myndin hefur hlotið fjölda alþjóðlegra tilnefninga og verðlauna og stuttmyndir sem allar standast Bechdel-prófið voru einnig sýndar. Helgin markaði upptöku kvikmyndahússins á Bechdel-prófinu og munu allar þær kvikmyndir sem standast prófið fá A-stimpil hjá Bíó Paradís. Samtökin WIFT voru stofnuð í Los Angeles á sjöunda áratugnum með það að markmiði að stuðla að fjölbreytni í myndrænum miðlum með því að virkja konur, gera þær sýnilegri og styðja þátttöku þeirra í öllum hlutverkum í framleiðslu kvikmynda og sjónvarpsefnis, eins og segir í tilkynningu.