Ekkert fyrirtæki fer yfir mörk um eigu aflahlutdeilda í heild eða í einstökum tegundum á nýju fiskveiðiári.

Ekkert fyrirtæki fer yfir mörk um eigu aflahlutdeilda í heild eða í einstökum tegundum á nýju fiskveiðiári. Samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða má heildaraflahlutdeild fiskiskipa í eigu einstakra eða tengdra aðila ekki fara yfir 12% af samanlögðu heildarverðmæti aflahlutdeilda allra tegunda. Þá má aflahlutdeild í þorski ekki fara yfir 12%. Í ýsu, ufsa, grálúðu, steinbít, síld og loðnu má hún ekki fara yfir 20% og í karfa ekki yfir 35%.

Frá þessu er greint á heimasíðu Fiskistofu, en fyrirtækið birti í gær stöðu aflaheimilda þeirra 100 útgerða sem ráða yfir mestum aflahlutdeildum í upphafi nýs fiskveiðiárs eftir úthlutun á aflaheimildum. Sambærilegar upplýsingar koma einnig fram um þær 50 útgerðir sem ráða yfir mestum krókaaflahlutdeildum.

Breytingar á milli ára

Nokkrar breytingar eru á því hvaða fyrirtæki eru í efstu sætunum frá því sams konar upplýsingar voru birtar í febrúar sl. í kjölfar úthlutunar á aflamarki í deilistofnum, en það á sér stað við upphaf almanaksárs. Þannig stekkur Þorbjörn hf úr sjötta í þriðja sæti og FISK-Seafood ehf úr áttunda sæti í það fjórða.

Eins og undanfarin ár eru HB Grandi og Samherji í tveimur efstu sætunum. HB Grandi er nú með um 10,9% af úthlutuðu aflamarki en Samherji er með 6,2%. Samanlagt ráða þessi tvö stærstu útgerðarfyrirtæki landsins yfir 17,1% af aflaheimildunum samanborið við 18,8% í upphafi þessa árs.

Líkleg skýring á þessum breytingum liggur í því að við upphaf fiskveiðiársins var ekki úthlutað aflamarki í loðnu og litlu í öðrum uppsjávartegundum. Fyrir vikið breytist hlutur útgerða innbyrðis vegna mismunandi tegundasamsetningar á hlutdeildum, segir á vef Fiskistofu.