Yunus Malli
Yunus Malli
Tyrkir munu hugsanlega tefla fram nýjum leikmanni þegar þeir mæta Tékklandi og Íslandi í síðustu umferðum undankeppni EM karla í knattspyrnu í næsta mánuði.

Tyrkir munu hugsanlega tefla fram nýjum leikmanni þegar þeir mæta Tékklandi og Íslandi í síðustu umferðum undankeppni EM karla í knattspyrnu í næsta mánuði. Sóknarsinnaði miðjumaðurinn Yunus Malli, sem lýst hefur verið sem „hinum nýja Mesut Özil“, hefur ákveðið að leika fyrir A-landslið Tyrkja þrátt fyrir að hafa spilað áður með U21-landsliði Þýskalands. Malli hefur farið á kostum með Mainz í þýsku 1. deildinni í upphafi leiktíðar og skorað fimm mörk í sex leikjum.

„Yunus er leikmaður sem við höfum fylgst lengi með og eftir fund okkar í dag varð niðurstaðan að hann vildi spila fyrir Tyrkland,“ sagði Fatih Terim, þjálfari Tyrkja, sem vonast til að gengið verði frá allri pappírsvinnu í tæka tíð fyrir landsleikina sem fara fram 10. og 13. október. sindris@mbl.is