Fangelsi Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg verður lokað.
Fangelsi Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg verður lokað. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Það sem af er ári hafa 23 fangelsisrefsingar fyrnst. Í fyrra sluppu 32 við fangelsisvist af sömu sökum og 20 árið 2013, en sakir fyrnast á tveimur til 20 árum samkvæmt hegningarlögum.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Það sem af er ári hafa 23 fangelsisrefsingar fyrnst. Í fyrra sluppu 32 við fangelsisvist af sömu sökum og 20 árið 2013, en sakir fyrnast á tveimur til 20 árum samkvæmt hegningarlögum.

Páll Winkel fangelsismálastjóri segir að tölurnar komi ekki á óvart. Um 2008 hafi refsingar íslenskra dómstóla þyngst heiftarlega, um 35% á milli ára, og síðan hafi sá toppur hækkað. Fangelsismálastofnun hafi strax varað við því að framundan væri mjög alvarlegt ástand og við því þyrfti að bregðast. Á þeim tíma hafi menn verið uppteknir við að rífast um staðsetningu nýs fangelsis og sá pólitíski leikur í nokkur ár hafi seinkað framkvæmdum. Jafnframt hafi Fangelsismálastofnun fært rök fyrir því að nýtt fangelsi yrði að vera stærra en á endanum hafi verið samþykkt.

Um 450 manns bíða

Hérlendis eru rúmlega 150 fangelsispláss. Fangelsisstofnun er með samning um vistun fanga á áfangaheimili Verndar, þar sem eru 20 til 25 pláss, um 200 manns eru á reynslulausn og um 450 manns bíða eftir að komast í afplánun. Stefnt er að því að nýtt fangelsi á Hólmsheiði með 56 plássum verði tilbúið um áramót, en á móti kemur að plássum fækkar eða hefur fækkað um 25 í Kópavogi og Reykjavík. Fleiri pláss vinna ekki á fyrningunum en hafa mikil áhrif. Páll segir að finna þurfi önnur úrræði til þess að fullnusta dóma. Skoða þurfi reglur um reynslulausn, samfélagsþjónustu og fleira.

Vegna niðurskurðar á fjárlögum líðandi árs segir Páll að loka hafi þurft kvennafangelsinu í Kópavogi um mitt ár. Í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár sé gert ráð fyrir enn meiri niðurskurði og því blasi ekkert annað við en að loka fleiri plássum. „Það er pólitísk ákvörðun,“ segir hann og áréttar að ákveði Alþingi að skera niður til málaflokksins sé eðlilegt að það ákveði líka hvar á landinu eigi að fækka störfum.

Forgangsraðað er inn í fangelsin. Þeir sem dæmdir eru fyrir alvarlegustu brotin eru í forgangi auk þeirra sem eru virkir í brotum eftir að dómur er kveðinn upp. Þeir sem eru með tiltölulega vægar refsingar, teljast ekki hættulegir umhverfi sínu og eru til friðs eftir að dómur hefur verið kveðinn upp sitja eftir á boðunarlistanum.