[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Orðið sléttmælgi eða sléttmæli þekkja flestir. Samkvæmt orðabókum táknar það smjaður eða skjall en hentar líka vel um slétt og fellt orðafar þeirra sem aldrei vilja styggja nokkurn mann.

Orðið sléttmælgi eða sléttmæli þekkja flestir. Samkvæmt orðabókum táknar það smjaður eða skjall en hentar líka vel um slétt og fellt orðafar þeirra sem aldrei vilja styggja nokkurn mann. Eins má hafa þetta orð um ræðu þeirra stjórnmálamanna sem er lagið að tala áferðarfallega og af nokkurri mælsku, en án minnsta innihalds.

Orðið réttmæli er haft um rétt mál, annaðhvort merkingarlega rétt, og þýðir þá það sama og sannmæli , ellegar rétt mál með tilliti til málfræði og framburðar.

Full þörf er á enn einu orði af sama toga, nefnilega réttmælgi , og mætti hafa það um orðafar sem telst „rétt“ samkvæmt kröfum rétthugsunar í lífsviðhorfum og stjórnmálum. Ýmsir hafa skömm á réttmælgi og finnst sem málið verði fyrir hennar tilverknað bragðlaust og blóðlaust. Ekki er þó hægt annað en að fagna því ef orð eins og fáviti og kynvillingur teljast ekki lengur nothæf nema sem sögulegar minjar.

En stundum gerast orð líka niðrandi án sýnilegrar ástæðu. Ekki er mér ljóst hvenær þannig fór fyrir orðinu negri í íslensku. Sennilega koma þar þó til áhrif frá örlögum orðsins negro í ensku sem missti réttindin og lenti í klassa með hinu niðrandi nigger. Svertingi og blökkumaður eru víst enn í lagi og vonandi endum við ekki með því að tala eins og Vesturheimsmenn um afrókana og kákasusmenn þegar við ræðum málefni svartra og hvítra.

Þó versnar fyrst verulega í málunum þegar réttmælgin lekur inn í eldri bókmenntir. Efarím Langsokkur, faðir Línu, var negrakóngur. Það starfsheiti þykir ekki boðlegt í nútímanum og hefur kallað á breytingar á klassískum texta Ástríðar.

Slíkar leiðréttingar eru að vísu ekki nýjar og einnig þekktar hérlendis. Björn Bjarnarson, hreppstjóri í Grafarholti, skrifaði bæklinginn Um ljóðalýti sem fjallaði að mestu um meinta bragfræðigalla og málfar en einnig innihald. Þannig gagnrýndi hann Hvað er svo glatt Jónasar Hallgrímssonar fyrir rangar áherslur en einkum úrelt viðhorf til áfengisneyslu:

„Hér er reynt að losast við ljóðalýti gömlu vísunnar. Og í stað þess að þar er áfengisnautnin látin vera aðal-gleðigjafi samkvæmisins, er það hér viturlegar ræður og fagur söngur, sem er kjarni skemmtunarinnar, og ætti það að vera vænlegra til manngöfgunar.“

Hvað léttir geð sem góðra vina fundur

er gleðin örvar fjör og lyftir brá?

Sem vors á tíma laufi skrýðist lundur

eins lifnar manns í huga kætin þá.

Er ræður sýna sálarkjarna frjóa

og söngur fagur glæðir hjartans yl,

þá vissulega bestu blómin gróa

í brjóstum þeim er geta fundið til.

Hér koma svo að lokum tvær nýjar tillögur í sama anda um alþekktar ljóðlínur Stefáns frá Hvítadal og Megasar (leiðréttingar skáletraðar):

Erla góða Erla, ég er að vagga þér.

En hlustið góðir drengir, það er hryllilegt en satt

það var helvítið hann Brynjólfur sem sædd'ana.

Þórarinn Eldjárn thorarinn@eldjarn.net