Ásgerður Halldórsdóttir
Ásgerður Halldórsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri Seltjarnarness, upplýsti á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna að forystusveit sveitarfélagsins hefði hreyft við þeirri hugmynd að lána ungu fólki fyrir útborgun í íbúð í tilteknum tilvikum.

Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri Seltjarnarness, upplýsti á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna að forystusveit sveitarfélagsins hefði hreyft við þeirri hugmynd að lána ungu fólki fyrir útborgun í íbúð í tilteknum tilvikum.

Spurð um tilefnið sagði Ásgerður að hún hefði upplýst þetta í fyrirspurnartíma hjá Eygló Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, á ráðstefnunni.

„Ég talaði um að laga þyrfti byggingarreglugerðina til þess að lækka húsnæðiskostnað. Ungt fólk á Nesinu er að koma til mín og spyrja hvort bærinn geti aðstoðað það við að fjármagna sín fyrstu kaup í íbúð vegna þess að það fái ekki greiðslumat. Ég sagði við hana [Eygló] að það væri ekki gott að fólk sem er búið að alast upp í sveitarfélaginu og bærinn búinn að koma í gegnum leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, og jafnvel útvega sumarvinnu, lendi svo á vegg þegar það ætlar að kaupa sína fyrstu íbúð í bæjarfélaginu, vegna þess að það á ekki fyrir útborguninni, þessar 4 til 5 milljónir sem það er að nefna ... Ríki og bankar verða að taka á þessu. Sveitarfélög standa frammi fyrir því hvort þau séu tilbúin að skoða hvort þau eigi að fara að grípa þarna inn í,“ segir Ásgerður, sem hyggst ræða málið formlega við fulltrúa í bæjarstjórn næstu daga.

Grétar Jónasson, framkvæmdastjóri Félags fasteignasala, telur að reglur um greiðslumat hafi verið hertar um of með nýjum neytendalögum sem tóku gildi 2013.

Fólk sem hafi ágætis tekjur og alla burði til að standa vel að málum komist ekki í gegnum greiðslumat, vegna skekkju í matskerfinu.