Hulda Svava Jónsdóttir fæddist í Reykavík 15. september 1922. Hún lést á Droplaugarstöðum 28. ágúst 2015.

Foreldrar hennar voru þau María Sigurbjörnsdóttir, f. á Ísafirði 26. júní 1894, húsfreyja í Reykjavík, d. 30. desember 1960, og Geir Jón Jónsson, f. á Hvarfi í Bárðardal 26. nóvember 1894, fyrst kennari og síðar gjaldkeri og bókari í Ísafoldarprentsmiðju, d. 18. desember 1938. Hulda var yngst þriggja barna þeirra hjóna, elstur var Sigurjón, f. á Ísafirði 20. maí 1914, d. 27. mars 1941, svo Auður Helga, f. í Reykjavík 8. september 1918, búsett í Kópavogi.

Hulda sleit barnsskónum í miðbæ Reykjavíkur og eftir skóla starfaði hún við bókband í Ísafoldarprentsmiðju og síðar á Rannsóknarstofu HÍ þar sem hún kynntist Þorsteini Þorsteinssyni, f. 25. október 1914, d. 21. maí 2005, sem síðar varð eiginmaður hennar til 63 ára. Þau eignuðust þrjá drengi: 1) Bjarni, f. 5. desember 1942 , d. 2. janúar 2001, kona hans var Kolbrún Eiríksdóttir og áttu þau þrjú börn, þau slitu samvistir. 2) Geir Jón, f. 19. júlí 1945, kona hans er Sigrún Emma Ottósdóttir og eiga þau fjögur börn. 3) Hallur, f. 12. mars 1952, kona hans er Þóra Lovísa Friðleifsdóttir og eiga þau einn son. Hulda gekk Þorsteini Sigurði, f. 17. júlí 1938, syni Þorsteins af fyrra hjónabandi, í móðurstað. Hulda og Þorsteinn bjuggu á Guðrúnargötu 4 allan sinn búskap. Hulda lætur eftir sig átta barnabörn, átján barnabarnabörn og þrjú barnabarnabarnabörn.

Útför Huldu fór fram í kyrrþey 2. september 2015.

Hulda tengdamóðir mín var yngst þriggja systkina og ólst hún upp með fjölskyldu sinni á nokkrum stöðum í miðbæ Reykjavíkur. Hún missti föður sinn aðeins fimmtán ára gömul og þremur árum síðar missti hún bróður sinn sem var að ljúka námi í læknisfræði. Þeir feðgarnir voru Huldu alla tíð hugstæðir og lifðu á vörum hennar, en hún var góður sögumaður og hafði mjög gott minni. Í frásögnum hennar urðu gamla Reykjavík og fólkið í bænum ljóslifandi og einnig ýmis uppátæki hennar og Auðar systur hennar. Þannig lifir til dæmis sagan af því þegar taka átti hálskirtlana úr Huldu ungri og von var á lækninum í heimsókn. Hún vissi hvað til stóð og faldi sig þess vegna á verkstæði líkkistusmiðsins í næsta húsi. Hún var enn með hálskirtlana þegar hún lést. Einnig sagan af heimsóknum Þórbergs Þórðarsonar, vinar pabba hennar, á heimili fjölskyldunnar í Bankastræti. Hann kom alltaf inn bakdyramegin því hann vildi ekki trufla draugana sem hann sagðist sjá í stiganum úr aðalinnganginum.

Hulda starfaði á Rannsóknarstofu Háskólans þegar hún kynntist Þorsteini Þorsteinssyni, sem einnig starfaði þar. Hann var ekkjumaður og átti ungan son sem hún tók að sér. Þau gengu í hjónaband 11. júlí 1942 og fluttu inn í glænýja íbúð á Guðrúnargötu 4 þar sem þau bjuggu sér fallegt heimili. Þau eignuðust saman þrjá drengi, Bjarna, sem lést 2001, Geir Jón og Hall. Þau hjónin voru alla tíð mjög samhent og glæsileg. Þorsteinn lést 2006 og bjó Hulda áfram á Guðrúnargötunni þar til hún fór á Droplaugarstaði í byrjun júní síðastliðins.

Við Hallur byrjuðum okkar búskap í kjallaranum á Guðrúnargötunni og þar bjuggum við þegar Þorsteinn Arnar, sonur okkar, fæddist. Síðar bjuggum við nokkur ár utan þéttbýlis í Mosfellssveit og vil ég þakka Huldu sérstaklega fyrir að hafa ásamt Þorsteini á þeim árum passað Þorstein Arnar, sem þá var nemandi í Æfingadeild kennaraskólans. Hann átti sitt annað heimili hjá afa og ömmu, kom til þeirra þegar skóla lauk á daginn og naut atlætis þeirra. Hulda var mjög góður kokkur og margt sem hún reiddi fram algjört lostæti sem ekki var hægt að líkja eftir. Þannig höfum við Þorsteinn Arnar bæði reynt að búa til eggjabollurnar hennar, en án árangurs því hún hafði sérstaka hæfileika á þessu sviði.

Við hjónin fórum í ótal minnisstæð ferðalög um landið með Huldu og Þorsteini og hún ferðaðist með okkur eftir að Þorsteinn dó. Ferðalögin voru gjarnan í kringum brúðkaupsdaginn þeirra, 11. júlí, og ég man ekki annað en það hafi alltaf verið sólskin þann dag. Demantsbrúðkaupi sínu fögnuðu þau á ferðalagi um Vestfirði með sonum sínum og tengdadætrum í blíðskaparveðri.

Takk fyrir allt kæra Hulda, minning þín lifir.

Þóra Lovísa.

Elsku Hulda, amma mín, er látin. Hún var falleg og glæsileg kona, hafði mjög smitandi hlátur og átti auðvelt með að sjá það spaugilega í lífinu. Það er margt sem kemur upp í hugann þegar ég hugsa um ömmu, t.d. morgunleikfimi, göngutúr út í fiskbúð, kókið í kaldasta ísskáp sögunnar, sögur af bróður hennar og frænkum, Nivea-krem og margt, margt fleira. Hún var vön að segja hvað henni bjó í brjósti og lét mig líka alveg heyra hvað henni fannst um klæðaburð minn, sérstaklega þegar ég var í Menntaskólanum við Hamrahlíð, henni fannst ég vera í of skræpóttum fötum, of áberandi... þetta fannst mér alveg út í hött en þegar ég skoða myndir frá þessum tíma var ég eins og lifandi jólaskreyting, hún vildi hafa sonardóttur sína smart. Hún hlustaði alltaf á hádegisfréttir og þegar ég söng síðasta lag fyrir fréttir hringdi hún undantekningarlaust í mig og lét mig vita og hrósaði mér um leið. Nú er elsku amma komin þangað sem hún hafði þráð svo lengi, til Þorsteins afa og Bjarna sonar síns.

Góði Guð, viltu leyfa ömmu minni að hvíla í friði og okkur í fjölskyldunni hennar að lifa í kærleik, umburðarlyndi og fyrirgefningu þinni.

Kærleikur er umhyggja fyrir öllu sem lifir.

Kærleikur er að dæma ekki.

Kærleikur er ljósið sem býr í hjarta þínu.

Hulda Guðrún Geirsdóttir.

Elsku amma Hulda, eða amma á götu eins og við kölluðum hana, er látin tæplega 93 ára.

Við eigum margar góðar minningar um ömmu og er varla hægt að sleppa afa í því samhengi því þau voru afar náin, en afi Þorsteinn lést árið 2006, þá 92 ára.

Allar góðu stundirnar með þeim uppi í landi, eða Sólheimakoti, landinu sem þau áttu. Þaðan eigum við góðar minningar, gönguferðirnar þar sem amma kenndi okkur að ganga rösklega, ískalda kókið sem afi gaf okkur sem þau geymdu í læknum og svo ótal margt fleira. Þau undu sér vel saman uppi í landi.

Amma var lánsöm að geta búið heima á Guðrúnargötu þar til í janúar sl. Hún vildi hvergi annars staðar vera enda búin að búa allan sinn búskap á Guðrúnargötu 4, eða í 73 ár. Það var alltaf gott að koma til ömmu sem tók alltaf svo vel á móti manni með bakkelsi og kaffi, já og ekki má gleyma ískalda kókinu sem maður fékk úr gamla góða ísskápnum hennar. En yndislegast var að spjalla við hana um heima og geima, amma fylgdist vel með öllu og var henni mikið í mun að vita allt um barnabörnin og þeirra fjölskyldur.

Amma var glæsileg fram á síðasta dag, með húð eins og á unglingi eins og við sögðum oft við hana og varla hægt að sjá hrukku á andlitinu. Ekki má gleyma hárinu á henni sem var alltaf vel lagt og þurfti að vera nákvæmlega á sínum stað. Amma lagði mikið upp úr því að vera vel tilhöfð og mikill snyrtipinni og hefur það erfst til afkomenda hennar. Chanel var hennar ilmvatn og finnum við enn lyktina hennar er við hugsum til hennar.

Þau afi voru mikið fyrir útiveru og voru miklir göngugarpar og skilaði það þeim háum aldri og góðri heilsu.

Það er yndislegt að þau gátu verið saman í tæp 65 ár á Guðrúnargötunni.

Elsku amma okkar, takk fyrir allt, þín verður sárt saknað og minning þín og afa mun lifa að eilífu.

Það verður skrítið að geta ekki droppað í uppáhellt kaffi, en við erum þakklát fyrir þau ár sem við gátum það.

Við vitum að afi og pabbi hafa tekið vel á móti þér og þú ert komin til þeirra, sem þú þráðir undir það síðasta.

Guð geymi þig, elsku amma, og sjáumst síðar.

Vertu yfir og allt um kring

með eilífri blessun þinni,

sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

(Sig. Jónsson frá Presthólum)

Þín ömmubörn,

Guðrún Bjarnadóttir

og Þorsteinn Bjarnason.

Elsku amma Hulda er fallin frá.

Ég var það heppinn að hafa ömmu og afa í næsta húsi fyrstu átta ár ævi minnar og þaðan í frá hefur Guðrúnargatan verið mitt annað heimili. Þar var alltaf heitur matur í hádeginu og notfærði ég mér það óspart að lauma mér þangað í mat í gegnum árin, og kæmi ég ekki á matmálstíma var maturinn hitaður upp því ekki mátti ég fara svangur út. Þegar ég byrjaði svo að vinna úti í bæ birtist amma á vinnusvæðinu með samlokur, handviss um að ég borðaði ekki nóg og myndi farast úr hor. Þetta gerði það að verkum að ég var oft kallaður „ömmustrákurinn“ og ekki leiddist mér það. Heima hjá afa og ömmu var alltaf ró og kyrrð. Svo rólegt að á unglingsárunum sofnaði ég þar oft í sófanum og missti af tímum í skólanum. Þegar amma var spurð af hverju hún hefði ekki vakið mig svaraði hún því til að hvíldin væri jafn mikilvæg og skólabækurnar.

Við amma vorum miklir félagar og gátum talað saman um hvað sem var. Við kölluðum okkur „trúnaðarvinina“, því allt sem var sagt var bara á milli okkar tveggja. Þrátt fyrir að rúmlega fimmtíu ára aldursmunur væri á okkur talaði ég við ömmu eins og félaga mína, og þegar ég sagði henni sögur af því sem við strákarnir höfðum verið að bralla láku oft tárin þegar hún hló sínum smitandi hlátri. Mun ég sakna mikið samtalanna okkar sem enduðu ávallt með stóru knúsi þegar við kvöddumst.

Amma var alla tíð mikið fyrir göngur og útiveru og fannst mér fátt skemmtilegra í æsku en að ganga með henni. Skipti þá ekki máli hvort við gengum saman í hverfisbúðirnar til að kaupa inn, en það gat tekið óratíma þegar hún spjallaði við kaupmanninn og aðra kúnna, eða niður Laugaveginn og ég fékk sögur af öllum sem bjuggu þar og í Bankastræti upp úr 1930. Tuttugu og fimm árum síðar vorum við á harðahlaupum í miðbænum að versla saman rétt fyrir jól og hún hélt fast í höndina á mér og sagði mér sögurnar af gamla bænum með blik í auga. En aðalgönguferðirnar voru „uppi í landi“ þar sem við bjuggum í nokkur ár og amma og afi áttu lítinn bústað sem var mikið notaður. Þar tók tíkin okkar hún Tinna á móti ömmu með miklum fagnaðarlátum og rölti svo með henni út í bústað. Þar lagðist Tinna með höfuðið í kjöltu ömmu og vældi tímunum saman, af því að hún hafði frá svo miklu að segja, sagði amma sem hlustaði þolinmóð. Amma var líka alltaf til í að leika við mig. Við fórum í fótbolta þar sem hún skaut ótrúlega föstum skotum, spiluðum á spil, lögðum kapla, þar sem þrjúbíó var heitið ef kapallinn gengi upp, og skemmtum við okkur alltaf vel saman.

Elsku amma mín. Ég kveð þig með söknuði og miklu þakklæti fyrir allt dekrið og hlýjuna sem var alltaf til staðar, fullviss um að þið afi eruð nú sameinuð hönd í hönd.

Þorsteinn Arnar.