[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Leikstjóri: Magnus von Horn. Aðalhlutverk: Ulrik Munther, Mats Blomgren, Alexander Nordgren og Ellen Mattsson. Frakkland, Pólland, Svíþjóð, 2015. 102 mín. Flokkur: Vitranir.
Efterskalv er fyrsta kvikmynd sænska leikstjórans Magnus von Horn og skrifaði hann jafnframt handrit hennar og byggði á raunverulegu sakamáli. Í myndinni er rakin saga unglingspilts, Johns, sem snýr aftur heim eftir að hafa lokið tveggja ára refsivist fyrir ónefndan glæp. John býr hjá föður sínum sem er bóndi og yngri bróður og ljóst er frá byrjun að glæpurinn sem hann framdi olli djúpum sárum sem hafa ekki náð að gróa á meðan hann tók út sína refsingu. Það sama á við um hið litla samfélag sem John og fjölskylda tilheyra og verður hann m.a. fyrir árás ónefndrar konu í matvöruverslun, greinilegt að hann hefur valdið henni óbætanlegum skaða. John snýr aftur í skólann sinn og verður þar fyrir ofsóknum samnemenda sinna, einkum nokkurra ungra pilta sem eru ekki sáttir við að honum hafi verið leyft að hefja aftur skólagöngu. Undir lok myndar kemur loks í ljós hver glæpurinn var og kemur þá ekki svo mjög á óvart, áhorfendur væntanlega búnir að leysa gátuna. Spurningin sem þá kviknar er hvort John takist að laga sig aftur að samfélaginu, hljóta fyrirgefningu synda sinna eða hvort hætta stafi af honum.

Efterskalv er kuldaleg mynd, samtöl stutt og lítið gefið upp og myndatakan undirstrikar hina miklu einangrun aðalpersónunnar. Má þar m.a. nefna nokkur atriði þar sem John er myndaður aftan frá og faðir hans fylgist með honum úr fjarlægð, augljóslega kvalinn á sálinni yfir gjörðum sonar síns. Þótt leikarar standi sig prýðilega og þá sérstaklega poppstjarnan Ulrik Munther sem leikur John og Mats Blomgren sem leikur föður hans, þá vantar meira kjöt á beinin. Myndin er afar hæg , stundum langdregin og erfitt að hafa samúð með John þar sem maður veit ekki framan af hvað hann hefur gert af sér. Það hefur þó væntanlega verið tilgangur leikstjórans. Þá er einnig erfitt að átta sig á því hvaða tilgangi ein persónan gegnir, afi Johns sem gengur ekki heill til skógar og virðist einungis vera í myndinni til að sýna áhorfandanum hversu erfitt lífið er hjá bóndanum sem þarf bæði að hugsa um elliæran föður sinn og son sem hefur verið útskúfað úr samfélaginu. En góður leikur og áhrifamikil myndataka í bland við nokkur rismikil, dramatísk atriði lyfta myndinni upp yfir meðallag.

Helgi Snær Sigurðsson

Háskólabíó, 1. okt. kl. 20.15. Spurt og svarað-sýning. Bíó Paradís 2. okt. kl. 19.45. Spurt og svarað-sýning.