Nú er kátt um öll mannanna ból, það er að segja þeirra manna sem spila FIFA-tölvuleikinn. Nýjasta útgáfa þessa vinsæla leiks, sem á eflaust sinn þátt í gríðarlegum vinsældum fótboltans, er komin í búðir.
Nú er kátt um öll mannanna ból, það er að segja þeirra manna sem spila FIFA-tölvuleikinn. Nýjasta útgáfa þessa vinsæla leiks, sem á eflaust sinn þátt í gríðarlegum vinsældum fótboltans, er komin í búðir. Ég verð reyndar alltaf fyrir vissum vonbrigðum með að ekki sé hægt að spila sem íslenska karlalandsliðið, og vonbrigðin eru enn meiri í ár nú þegar kvennalandsliðum hefur verið bætt við leikinn án þess að þar sé pláss fyrir 19. besta kvennalandslið heims. Þetta snýst örugglega um eitthvað annað en getu liðanna en vonandi hjálpar þátttaka í lokakeppni EM til.

Það fyrsta sem ég geri er að setja saman mitt eigið lið í Ultimate Team-hlutanum, skipað eingöngu Íslendingum. Í ár er Gylfi Sigurðsson sem fyrr með hæstu einkunn Íslendinganna, eða 78, en einhverjum kann að koma á óvart að Emil Hallfreðs er núna næsthæstur, með 77. Kolbeinn og Alfreð koma svo næstir með 75 í einkunn.

Mér finnst Íslendingarnir auðvitað ekki alveg metnir að verðleikum, eftir stórkostlega frammistöðu síðustu misseri, en það hentar mér mjög vel að Hannes Þór Halldórsson skuli vera orðinn brúklegur markmaður í leiknum, og að Ari Freyr Skúlason skuli titlaður bakvörður en ekki miðjumaður.