Baldur Arnarson baldura@mbl.is Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, segir nýjar skipulagsbreytingar hjá bankanum munu auka hagræði í rekstri enn frekar.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, segir nýjar skipulagsbreytingar hjá bankanum munu auka hagræði í rekstri enn frekar. Framkvæmdastjórar hjá bankanum eru nú sex en þeir voru mest níu eftir að Steinþór tók við bankanum um mitt ár 2010. Bankastjórinn myndar með þeim yfirstjórn bankans og eru því nú sjö í framkvæmdastjórn.

Á þessu ári hefur sviðum og framkvæmdastjórum verið fækkað hjá Landsbankanum. Rótin að breytingunum í þessari lotu er að sviðið þróun og mannauður var lagt niður. Við það voru deildir sem heyrðu undir það færðar til innan bankans.

Heyrðu undir þróunarsvið

Markaðs- og samskiptamál og mannauðsmál heyrðu undir þróunarsvið en heyra nú undir skrifstofu bankastjóra. Undir skrifstofuna heyrði áður regluvarsla og eru nú þrjár einingar undir skrifstofunni.

Við þessa breytingu hefur Kristján Kristjánsson nú horfið á braut sem upplýsingafulltrúi. Hann kom til bankans eftir að hafa tekið þátt í krísustjórnun í stjórnarráðinu eftir efnahagshrunið 2008.

Þá hafa aðrar deildir sem áður heyrðu undir svið þróunar og mannauðs verið færðar undir svið rekstrar og upplýsingatækni. Breytingarnar voru kynntar starfsmönnum í júlí.

Steinþór segir starfsmannafjölda bankans hafa náð hámarki í árslok 2011 er 1.311 manns störfuðu þar. Á miðju þessu ári hafi starfsmennirnir verið orðnir 1.088 og er það 17% fækkun. Þeim hefur fækkað meira síðan en trúnaður gildir um þá tölu þar til uppgjör er birt 5. nóvember.

Fækkun útibúa á þátt í þessari þróun. Steinþór segir að starfsmönnum bankans hafi fækkað nokkuð jöfnum höndum í útibúum og miðlægum einingum.

„Það er stöðugt verið að breyta skipulagi bankans. Þegar ég kom inn í bankann um mitt ár 2010 fór ég fljótlega í skipulagsbreytingar. Ég auglýsti allar stöður framkvæmdastjóra og við breyttum skipulaginu til að takast á við þær áherslur og áskoranir sem þá voru uppi. Þá til dæmis með því að stofna sérstakt svið sem vann eingöngu í endurskipulagningu. Síðan breyttum við skipulaginu tveimur árum síðar. Þá hafði vinna við endurskipulagningu minnkað töluvert.“

Skipulagið eins og verkfæri

„Ég sé skipulag sem verkfæri til að takast á við þau verkefni sem menn eru að fást við. Við breyttum skipulaginu 2012 og svo aftur í byrjun þessa árs. Svo einfölduðum við skipulagið aftur í sumar og fækkuðum sviðum. Nú eru sex framkvæmdastjórar. Markmiðið er að vera með hagkvæma einingu sem er mótuð af þeim verkefnum sem við blasa. Við erum að reyna að ná fram hagkvæmni og vera skilvirk í okkar verkum.“

Steinþór segir framkvæmdastjórana hafa verið sjö fyrir síðustu breytingar. Þeir voru átta þegar Steinþór tók við bankanum en fjölgaði svo í níu þegar Landsbankinn tók yfir SP Fjármögnun og Avant. Þeim var svo fækkað aftur í átta og svo í sjö og loks sex í þessari lotu. Á þessu tímabili hafa SpKef, Sparisjóður Vestmannaeyja og Sparisjóður Norðurlands runnið inn í Landsbankann.

Meiri tekjur á hvert stöðugildi

Spurður hvað þessi hagræðing hafi skilað bankanum miklu í krónum talið segir Steinþór Pálsson bankastjóri að bankanum hafi tekist að auka markaðshlutdeild sína hjá einstaklingum úr 28% í 35%, án þess að kostnaður bankans af þjónustunni hafi aukist. Horfi beri til þess að laun hafi hækkað á síðustu misserum og umsvif bankans aukist, meðal annars vegna samruna annarra fjármálastofnana við bankann.

Þær upplýsingar fengust hjá Landsbankanum að á tímabilinu 30. júní 2010 til 30. júní 2015 hefðu hreinar rekstrartekjur bankans aukist um 62% miðað við meðalstöðugildi. Rekstrarkostnaður jókst á sama tíma um 39% miðað við meðalstöðugildi. Var hækkun rekstrarkostnaðar sögð hafa haldist nokkurn veginn í hendur við launavísitölu. Á samanburðartímabilinu hafi launavísitalan þannig hækkað um 38%.