Áslaug Bjarney Matthíasdóttir fæddist í Reykjavík 30. ágúst 1930. Hún lést á heimili sínu, 4 Glenwood Road, Toms River, New Jersey, USA, 27. maí 2015.

Foreldrar hennar voru Matthías Matthíasson og Kristín Kristjánsdóttir.

Hinn 29. apríl 1950 giftist Áslaug, Sigurbjarna Kristinssyni. Foreldrar hans voru Kristinn Halldórsson og Margrét Þórdís Víglundsdóttir. Þau eignuðust þrjú börn: 1. Margréti, f. 12. júlí 1950, 2. Kristin Ragnar, f. 8. maí 1952, og Bjarna, f. 19. október 1957. Barnabörnin eru þrjú og tvö barnabarnabörn.

Jarðsetning Áslaugar Bjarneyjar verður í Gufuneskirkjugarði 24. september 2015, kl. 14.

Eftir tíu ára búskap á Íslandi, árið 1960, ákváðum við að byrja nýtt líf í Bandaríkjunum. Við ferðuðumst um á milli skyldmenna og á endanum settumst við niður í Toms River, New Jersey, árið 1962. Við létum byggja fyrir okkur hús og fluttumst inn í það í 1964. Ég vann í byggingarvinnu. Á meðan bjó Áslaug börnin fyrir betri menntun. Margrét útskrifaðist frá Glassboro College árið 1972, Kristinn Ragnar útskrifaðist frá New York University árið 1974, og Bjarni útskrifaðist frá Rutgers University árið 1979

Á okkar eldri árum byrjuðum við að ferðast. Við fórum til London, Parísar, Róm og Madrid. Við ferðuðumst um Holland, Belgíu, Þýskaland, og Sviss, og eins um Kaupmannahöfn, Stokkhólm, og Osló. Síðan til Istanbul í Tyrklandi, Buenos Aires í Argentínu og Santiago í Chile. Síðan fórum við að heimsækja syni okkar einu sinni á ári. Bjarni bjó í Los Angeles í fimm ár og Kristinn Ragnar bjó á Hawai í átta ár. Stuttu eftir 65 ára hjúskaparafmæli kvaddi Áslaug Bjarney. Nú snúum við aftur til Íslands. Ég er búinn að panta tvo reiti í Gufuneskirkjugarði og verður duftið hennar lagt þar niður þann 24. september 2015, kl. 14.

Elsku Biddý mín, mjög fljótlega verður mitt duft lagt niður við hliðina hjá þér svo við getum horft til baka á sambúð okkar og hamingju í öll þessu liðnu ár.

Sigurbjarni Kristinsson.

Mig langar að minnast Biddýar eins og hún var alltaf kölluð. Ég kynntist henni þegar ég kom inn í fjölskyldu Birgis Víglundssonar, á erfiðum tíma þegar Villi bróðir Bjarna dó en hún tók svo vel á móti mér. Það var alltaf gaman að spjalla við hana um allt mögulegt. Á leið okkar í gegnum lífið söfnum við minningarperlum um ánægjulegar stundir liðinna ára. Ein af þessum perlum sem við munum varðveita í minningunni var þegar við dvöldum hjá fjölskyldu Bjarna og Biddýar í Ameríku 2008, það var draumur. Biddy var góð kona, eiginkona, móðir, amma og vinur.

Svo viðkvæmt er lífið sem vordagsins blóm,

er verður að hlíta þeim lögum

að beygja sig undir þann allsherjardóm

sem ævina telur í dögum.

Við áttum hér saman svo indæla stund

sem aldrei mér hverfur úr minni

og nú ertu gengin á guðanna fund

það geislar af minningu þinni.

(Friðrik Steingrímsson frá Grímsstöðum)

Ég votta Sigurbjarna, börnum og barnabörnum samúð mína.

Marta Hauksdóttir,

Helgafelli.